Málstofa Hafrannsóknastofnunar – athyglisvert erindi – er rangt að flokka þorskinn sem botnfisk?

Fyrr í dag bauð málstofa Hafrannsóknastofnunar upp á erindið: „Hrygningaratferli þorsks séð með rafeindamerkjum“
Það var Vilhjálmur Þorsteinsson sérfræðingur á Hafró sem sagði hvers hann hefði orðið vísari um atferli þorska á hrygningarslóð út frá gögnum úr rafeindamerkjum. Erindið var hið fróðlegasta og verður gaman að fylgjast með framhaldi þessara athugana Vilhjálms.
Af gögnunum mátti m.a. sjá að viðvera þorsks á hrygningarslóð virðist ekki vera háð stærð hans, flestir fiskarnir eru um 25 daga á slóðinni og skiptir þá litlu máli hvort um stóran þorsk er að ræða, meðalstóran eða smáan.

Lítill veiðanleiki kyrrstæðra veiðarfæra

Það kom einnig fram að þorskurinn virðist nánast hreyfingarlaus eftir að hann er kominn á hrygningarslóðina, utan þess að á fallaskiptum færir hann sig upp í sjó, sem bendir til þess að þá sé veiðanleiki kyrrstæðra veiðarfæra nánast enginn. Við slíkar upplýsingar mætti velta því fyrir sér hvort „hrygningarstopp“ sem gilt hefur fyrir öll veiðarfæri heyri ekki sögunni til og framvegis nái það eingöngu til dragveiðarfæra. Útgerðir báta með kyrrstæð veiðarfæri yrðu þannig ekki fyrir truflun við veiðar á öðrum tegundum, svo sem steinbít, á þessum tíma.

Togararall mælir ekki fisk uppi í sjó

Þá var það sérlega athyglisvert að þorskur virðist í meira mæli dveljast fjær botni en búast mætti við þar sem um svokallaðan botnfisk er að ræða. Þessar upplýsingar vekja upp spurningar um hvort hér sé ekki komin fram vísbending fyrir því að þorskstofninn er mun stærri heldur en togararallið hefur gefið tilefni til. Það verður þó að fara varlega í allar alhæfingar um þetta þar sem niðurstöður eru byggðar á atferli fárra þorska.