Morgunblaðið birti í gær opið bréf til Hafrannsóknastofnunar. Þar fjallar höfundur Gísli Gunnar Marteinsson sjómaður í Ólafsvík um veiðarfæranotkun á Breiðarfirði. Grein Gísla er eftirfarandi:
„Bréfið byggir á forvitni undirritaðs og ástæða opinberrar birtingar er að einhverjir fleiri kynnu að vilja fræðast af svörunum. Ennfremur eru settar fram nokkrar staðhæfingar sem vonandi eru ekki fjarri lagi.
Reglugerðin um bann við línuveiðum sunnan áls í firðinum er orðin að veruleika. Ástæðan er sjálfsagt hinar mörgu skyndilokanir sem á undan voru gengnar. Reyndar getur undirritaður lagt fram gögn frá þessu hausti sem sýna vænni samsetningu á þorski af umræddri slóð heldur en af slóð annars staðar úr firðinum. Það er reyndar svipaða sögu að segja af öðrum veiðisvæðum fjarðarins þar sem nota má línu. Því virkar það handahófskennt að loka svo stóru svæði í einu lagi og kann, fyrir viðkomandi byggðarlög, að reynast skelfilegt að lokunin skuli vera í formi reglugerðar. Sagan ber þeim alls ekki fagurt vitni. Sveitastjórnir og fleiri mega þakka öfluguri forystu smáb.fél. Snæfells ef tekst að fá svæðið opnað á ný. Þar hafa menn, með gildum rökum, barist vel.
Norðan álsins er í gildi önnur reglugerð um bann við línuveiðum. Upprunalega reglugerðin er orðin a.m.k. 15 ára en þrengdi enn frekar að línubátum fyrir um 10 árum síðan. Fram til 1994 þá opnaðist þetta ‘hólf” fyrir línuveiðum 1. apríl ár hvert en þá var sú opnun tekin út. Núna er opnuð ræma af þessu inn með Látrabjargi til steinbítsveiða og er hún opin í u.þ.b. 6 vikur á hverju ári.
Það kann reyndar að vera rangt að kalla þetta svæði ;hólf” því það þekur stóran hluta af firðinum og að einhverra mati þá nær svæðið yfir mest alla fiskislóð fjarðarins. Margir skipstjórnarmenn myndu svara því til að inni í þessari reglugerð væri almennt vænsti þorskurinn sem unnt er að veiða í Breiðafirðinum enda býður botnlagið á þessu svæði virkilega upp á aðstæður fyrir vænan fisk. Inni í þessu ‘hólfi” má nota öll önnur veiðarfæri en línu. Botnvarpan getur verið innan svæðisins allt árið en má þriðjung úr ári fara langt inn í fjörð eða nánast á móts við Skor. Línuveiðar má hins vegar stunda fyrir innan hólfið þótt það sé nokkuð samdóma álit veiðimanna að því innar sem farið er því smærri verður fiskurinn, alla jafna. En áðurnefnd forvitni brýst m.a. út í eftirfarandi spurningum:
1. Um nýju reglugerðina: Hve margar talningar voru, fyrir gildistöku reglugerðarinnar, gerðar af svæðum sem lokuðust inni og hve margar af svæðum utan þeirra?
2-3. Ef nýja reglugerðin stendur munu línubátar verða af þeim steinbít sem inn á grunnið kann að skríða. Mörgum hefur gengið nógu illa að ná í steinbítskvótann þótt ekki bætist við enn eitt bannið. Síðustu vetur hefur hins vegar verið byrjað tímanlega að beita loðnu sem greinilega hefur skilað mun færri en stærri þorskum með steinbítnum. Það virðist sem smærri þorskurinn taki loðnuna miklu síður. Þetta hefur undirritaður stundum kallað ‘smáfiskaskilju”. En loðnan hentar ekki nema steinbítur sé á slóðinni. Á þetta hefur verið bent fyrr s.s. í tengslum við steinbítsveiðar í hrygningastoppi. Því miður hafa undirtektir stofnunarinnar verið dræmar. Hefur hún gert rannsóknir af þessu tagi? Ef ekki, er hún þá tilbúin til samstarfs við þá sem halda þessu fram?
4-5. Kjaftasögur kalla gömlu reglugerðina hagsmunahólf fyrir dragnót og troll. Undirritaður leggur ekki eyrun við því en kýs að trúa að vísindaleg rök liggi að baki reglugerðinni. En það er erfitt að greina samhengið. Hvaða verndunarrök liggja að baki þessari reglugerð? Hvers vegna var reglugerðinni breytt 1994 og þá hætt að opna svæðið 1.apríl?
6-7. Hver er aflasamsetning báta sem róa undir Látrabjargið að vori? Hvað mælir gegn því að halda þessari ræmu opinni svo lengi sem þar er hægt að veiða aðallega steinbít og reyndar þokkalega ýsu?
8-9. Stofnunin birtir eftirfarandi texta á Heimasíðu sinni:
Veiðarfæri, sem dregin eru eftir botni (vörpur, dragnætur, plógar), geta rótað upp botnseti og velt stórgrýti. Á svæðum þar sem veiðiálag er mikið getur setgerð og landslag botnsins breyst, og slíkar breytingar geta leitt til þess að búsvæði henti ekki lengur dýrum sem þar þrýfast” .
Tiltekin stærð togara má fara inn í fjörðinn á móts við Skor á tímabilinu 1.sept. til áramóta. Hvers vegna ekki allt árið? Verða einhverjar breytingar á fiskgengd eða sjávargróðri í námunda við þessar tímasetningar?
10-11. Hefur stofnunin birt einhverjar kenningar um það hvers vegna stóra skatan, sem mikið veiddist af t.d. við Breiðafjörð kringum 1980, er horfin? Hver er þróun tindabykkju á sömu svæðum?
12-13. Hvaða skaða gætu línubátar unnið ef reglugerðin yrði felld úr gildi og í staðinn yrði beitt skyndilokunum eins og annarsstaðar tíðkast?
14. Í sjónvarpsfréttum í lok nóv. s.l. nefndi Sjávarútvegsráðherra að neytendur í útlöndum vildu vita hvort notuð hefðu verið umhverfisvæn veiðarfæri. Þá kann fávís að spyrja: Veit Hafr.st. hvaða veiðarfæri ráðherrann kallar umhverfisvæn og ef svo er getur stofnunin þá verið honum sammála?
Virðingarfyllst,
Gísli Gunnar Marteinsson
sjómaður í Ólafsvík“