Ýsan – alþingismaður gerir athugasemdir við fullyrðingar fiskifræðings

Sigurjón Þórðarson alþingismaður ritar grein á heimasíðu –
http://www.althingi.is/sigurjon
– sína í dag þar sem hann gerir athugasemdir við margar fullyrðingar Guðmundar Þórðarsonar fiskifræðings. Viðtalið við Guðmund birtist í Sjómanninum.
Grein Sigurjóns ber heitið „Sérkennileg líffræði í Sjómanninum“ og er eftirfarandi:

„Ég renndi á dögunum í gegnum ágætis rit sem nefnist Sjómaðurinn en þar var að finna viðtal við Guðmund Þórðarson fiskifræðing. Gera má athugasemd við mjög margar fullyrðingar Guðmundar um sveiflur í vexti og kynþroska ýsu en ég ætla að láta nægja að benda á það sem er út í hött.

Fullyrt er að allar líkur séu á að vöxtur ýsu sé ákvarðaður snemma á lífsleiðinni, þ.e. á fyrstu tveimur árunum, og hann breytist ekki þó svo að lífsskilyrði batni síðar á lífsleiðinni. Ef þessi líffræðikenning ætti við einhver rök að styðjast, þá væri áframeldi á tveggja ára og eldri villtri ýsu vita vonlaust. Samkvæmt grein í Fiskifréttum er ekki svo, þar sem ýsan vex mjög vel í eldi. Í greininni var fjallað um árangur af áframeldi ýsu í Eyjafirði, en hjá ÚA kom í ljós að einstaklingsvöxtur ýsu var að meðaltali 130% á sjö mánaða tímabili.

Í viðtalinu við Guðmund í Sjómanninum var bent á að fæðuskortur væri ekki orsök fyrir hægari vexti ýsu á síðustu 10 árum og bent á að ýsan væri „hrææta“. Ekki veit ég við hvað er átt með því að ýsan sé hrææta en hún er botnlæg og étur flest sem að kjafti kemur, s.s. sandsíli, smásíld, spærling, krabbadýr, skeldýr, burstaorma, ígulker, hrogn og seiði.

Auðvitað hlýtur fæðuframboð á botndýrum að hafa áhrif á vöxt og viðgang ýsu, annað væri fjarstæða. Ljóst er að ef ýsustofn er stór þá er meiri samkeppni um fæðuna og minna til skiptanna fyrir hvern og einn einstakling. Aukinn „þéttleiki“ leiðir að öllum líkindum til minna fæðuframboðs.

Af viðtalinu við Guðmund má helst skilja að þéttleikinn geti haft áhrif á vöxt ýsu en ekki fæðuframboðið en ef til vill gengur tilgátan út á það að það sem dragi verulega úr vexti ýsu sé að sjá aðrar ýsur í kringum sig.

Varðandi þá fullyrðingu að ýsan hrygni á einhverjum einum punkti við suðvesturhorn landsins þá er rétt að benda á að samkvæmt ritinu Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson kemur fram að ýsan hrygnir allt frá Ingólfshöfða að Ísafjarðardjúpi.

Að lokum er rétt að geta þess að þær spurningar sem fiskifræðingurinn er að leita svara við, þ.e. orsök fyrir gífurlegum sveiflum í kynþroska og vexti ýsu, eru mjög áhugaverðar en það er óneitanlega sérstætt að byrja á að útiloka einn áhrifamesta líffræðilega þáttinn í vexti og viðgangi dýrastofna, þ.e. fæðuframboðið.“