Mikið af loðnu, segir Hafró

Í dag barst eftirfarandi tilkynning frá Hafrannsóknarstofnun vegna mælinga á stærð loðnustofnsins:

„Eins og kunnugt er hélt rannsóknaskipið Árni Friðriksson ásamt 9 loðnuskipum til leitar og mælinga á loðnumiðum þann 4. janúar s.l. Leitarsvæðið náði frá því út af sunnanverðum Vestfjörðum norður og austur um á móts við Norðfjarðarflóa. Út af Norðurlandi fannst loðna á 100 sjómílna löngum kafla frá því norður af Melrakkasléttu vestur og norður fyrir Kolbeinsey.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nú við mælingu fyrir norðan land. Því verki er enn ekki lokið en ljóst er orðið að svo mikið af loðnu er þarna á ferðum að fyrirsjáanlega verður hægt að auka útgefinn loðnukvóta verulega.

Gert er ráð fyrir að loðnumælingu ljúki um eða uppúr miðri næstu viku. Fyrst að leiðangri loknum verður unnt að veita nánari upplýsingar um áætlað magn loðnu á miðunum og mun Hafrannsóknastofnunin þá gera tillögur til stjórnvalda um endanlegt aflamark á yfirstandandi loðnuvertíð.“