Loksins skal grásleppan rannsökuð

Af einhverjum ástæðum sem aldrei hafa fengist tíundaðar, hefur grásleppan orðið rækilega útundan í rannnsóknum fiskifræðinga á nytjastofnum sjávar. Þetta er síður en svo bundið við Ísland, því allar helstu veiðiþjóðirnar, Noregur, Kanada, Grænland og Ísland hafa látið undir höfuð leggjast að rannsaka þessa furðuskepnu.

En nú er að verða einhver breyting á þessu. Í Kanada eru vísindamenn farnir að veita henni athygli.
Líffræðingurinn Alain Frechet segir að hið opinbera sé loks að bregðast við kalli iðnaðarins og í ljósi þess hversu mikil veiðin var á vertíðinni 2004 – og þar með hversu stór hlutur þeirra var í efnahagslífi Nýfundnalendinga, séu rannsóknir að hefjast á réttum tíma. Fram að þessu hafi grásleppan ekki vakið áhuga vísindamanna.

Frechet og félagar merktu um 1000 grásleppur í St. Lawrence flóanum á árinu 2004, en hann liggur að vesturströnd Nýfundnalands.
Æxlunarfæri um 350 fiska til viðbótar voru tekin til rannsókna í því skyni að afla betri þekkingar á hrognaframleiðslunni. Vísindamennirnir halda því fram að með slíkum rannsóknum megi að auki fá betri innsýn í hvernig best sé að nýta tegundina.

Frechet heldur því fram að mjög mikilvægt sé að forðast að veiða rauðmagann og elstu grásleppurnar séu stofninum mikilvægastar. Hann á ekki von á því að farið verði að nota þessar rannsóknir til stýringar veiðunum á vertíðinni 2005, en það sé hinsvegar hugsanlegt á allra næstu árum.