Opinn fundur í Ólafsvík

Á fundi í stjórn Snæfells sem haldinn var í Ólafsvík 28. desember sl. var ákveðið að efna til opins fundar um sjávarútvegsmál þann 26. janúar nk. Fundurinn, sem tilkominn er vegna tíðrar skyndilokana á Breiðafirði og reglugerðarlokunar, verður haldinn í Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Til fundarins verður boðið fulltrúum frá Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu. Þá verður alþingismönnum kjördæmisins og sveitarstjórnarmönnum einnig sérstaklega boðið á fundinn, auk formanns sjávarútvegsnefndar Alþingis.
Á fundinum verður að öllu forfallalausu kynnt skýrsla Jóns Kristjánssonar fiskifræðings um lengdardreifingu þorsks og aldur, ásamt ástandi hans. Snæfell hefur fengið Jón til þessa verkefnis sem framkvæmt verður á næstu dögum.
Nánar verður greint frá fundinum þegar nær dregur.