Rétt fyrir áramót gaf sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð um línuveiðar norskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi árið 2005. Í reglugerðinni er norskum skipum sem hafa leyfi til línuveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi heimilað að veiða samtals 500 tonn af keilu, löngu og blálöngu. Ennfremur er þeim heimilt að veiða 125 tonn af öðrum tegundum, þó ekki meira en 25 tonn af lúðu, 50 tonn af grálúðu og 50 tonn af karfa. Þá má samanlagður afli í öðrum tegundum en keilu, löngu og blálöngu, ekki verða meiri en 25% af afla í þeim tegundum. Ennfremur má lúðuafli ekki verða meiri en 5%, grálúða 10% og karfi 10% af heildarafla í hverri veiðiferð.
Það vekur athygli að í reglugerðinni er ákvæði sem skyldar viðkomandi að færa sig frá veiðistað fari afli í einstakri tegund, annarri en keilu, löngu eða blálöngu yfir 50% af heildarafla þegar lína er dregin. Þessi aðferð vekur upp spurningar sem kviknuðu þegar ákveðið var, árið 2001, að kvótasetja keilu, löngu og skötusel. Þá var gjarnan gefin sú ástæða fyrir kvótasetningunni að einstakir bátar væru farnir að gera út á þessar tegundir og því mundi afli fara langt fram úr því sem Hafró legði til. Mótrök við þessu voru að loka svæðum sem þessar tegundir héldu sig. Nú bætist við að hægt hefði verið að bæta um betur í mótrökin og banna lagningu á svæðum þar sem afli í viðkomandi tegundum hefði verið meiri en x% af heildarafla. Með slíkri stjórnun hefði örugglega verið hægt að komast hjá umdeildri kvótasetningu í keilu, löngu og skötusel og tryggt væri að aukning í þessum tegundum mundi skila sér í land.