Landssamband smábátaeigenda (LS) lýsir vonbrigðum sínum með ákvörðun sjávarútvegsráðherra frá 12. janúar sl. um friðun hrygningarþorsks á vetrarvertíð.
Vakin skal athygli á því að vísindamenn sem stöðugt eru á vettvangi merkja að sl. ár hefur hrognamyndun verið fyrr á ferðinni. Það er því með öllu óskiljanlegt að veiðibann sé ekki fært fyrr í tíma. Páskar myndu þannig falla inn í bannið og minnka þau áhrif sem það annars hefði á útgerð einstakra báta, auk þess að það mundi koma til móts við hörð mótmæli sem fjöldi félagsmanna hefur komið á framfæri við skrifstofu LS.
Rétt er að vekja athygli á að allt frá upphafi þess að Hafrannsóknastofnun hóf að leggja til við sjávarútvegsráðherra að stöðva veiðar á líklegum hrygningartíma þorsksins hefur LS óskað eftir að veiðibannið næði ekki til veiða með línu og handfærum.
Hér með er krafa þessi ítrekuð. Ennfremur er þess farið á leit við Hafrannsóknastofnun að hún upplýsi um þann árangur sem orðið hefur af 14 ára friðun á hrygningartíma þorsks og hver séu rök stofnunarinnar fyrir því að bannið nái einnig til veiða með línu og handfærum.