Í s.l. viku funduðu í London samtök veiðimanna við Norður – Atlantshaf til að ræða þá stöðu sem grásleppuveiðimenn eru í eftir mikla veiði á síðustu vertíð. Almennt er talið að kavíarmarkaður grásleppuhrogna sé um 33 þúsund tunnur á ári (u.þ.b. 3500 tonn) en veiðin á árinu 2004 var um 45 þúsund tunnur (4700 tonn). Þetta er þriðja mesta veiði í sögu grásleppuveiðanna og í hin tvö skiptin fylgdu í kjölfarið löng tímabil lágra verða til veiðimanna.
Birgðir hafa hækkað að lágmarki um 70% á milli ára.
Í ljósi þessa var eftirfarandi samþykkt gerð á fundinum:
„ Þann 3. febrúar 2005 hittust undirrituð félagasamtök fiskimanna við Norður – Atlantshafið til að ræða stöðu og horfur félaga sinna varðandi komandi grásleppuvertíð. Fundurinn er framhald umræðna sem byrjuðu innan félaganna s.l. sumar.
Ljóst virðist vera, að umhverfisaðstæður séu almennt hagstæðar grásleppustofnunum, með þeirri undantekningu sem verið hefur við Norður – Noreg og Danmörk. Sé þetta staðreynd er augljóst að veiðarnar geta auðveldlega farið fram úr því sem kavíarmarkaðurinn ræður við að óbreyttu.
Grásleppuveiðimenn hafa langa reynslu af miklum sveiflum í veiðum og verðum. Á frekari takmarkana á sókn á komandi vertíð munu veiðimenn horfast í augu við enn eina niðursveiflu í verðum, með tilheyrandi afleiðingum fyrir lifibrauð þeirra og rekstur.
Eftirfarandi samkomulag var niðurstaða fundarins:
Við, eftirtalin samtök fiskimanna, FFAW (Fish and Food Allied Workers, Nýfundnalandi),
KNAPK (Veiðimanna og fiskimannasamtök Grænlands), Landssamband smábátaeigenda og
NK (Samtök norskra strandveiðimanna)
samþykkja að gera það sem í þeirra valdi stendur til að takmarka veiðarnar á komandi grásleppuvertíð við 27 þúsund tunnur. Ef þau þrjú lönd, sem hér eiga stærstan hlut að máli, að teknu tilliti til þess niðurskurðar sem þegar hefur verið ákveðinn í Noregi, marka sér jafnstóra hluti af því sem eftir stendur, þýðir það niðurskurð fyrir Nýfundnaland uppá 45% og 32% niðurskurð fyrir Ísland og Grænland, miðað við vertíðina 2004.
Í samræmi við þetta hafa samtökin þegar hafið að vinna með félögum sínum og viðkomandi yfirvöldum að málinu og vonandi í framhaldi viðskiptavinum, sem ættu, rétt eins og veiðimenn að kjósa stöðugleika í greininni, bæði varðandi veiðar og verð.
Samhliða þessu skora undirrituð samtök á kavíarframleiðendur að gera sitt ítrasta til að stækka núverandi markaði, samhliða því að leita nýrra.
London, 3. febrúar 2005
FFAW (Fish and Food Allied Workers)
Bill Broderick, forseti strandveiðideildar
David Decker, aðalféhirðir
KNAPK (Veiðimanna og fiskimannasamtök Grænlands)
Leif Fontaine, formaður
Landssamband smábátaeigenda
Arthur Bogason, formaður
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri
Norges Kystfiskarlag
Hilde Rødås Johnsen, skrifstofustjóri