„Vísindamenn þurfa aðhald – verðum að þora að segja okkar skoðun“Gísli Ólafsson varaformaður Snæfells

Á fundi Snæfells í Ólafsvík 26. janúar, „Hvað er að gerast í sjónum?“, var varaformaður félagsins Gísli Ólafsson einn frummælenda. Erindi Gísla var allt hið áhugaverðasta og því rétt að birta hér kafla úr því.

„Hver er tilgangur fundarins?
Lengst af hefur umræðan snúist um sóknarmark / aflamark. Útgerðarmenn hafa ekki viljað hafa sig mikið í frammi,fundur jan 004.jpg ekki viljað rugga bátnum þar sem of miklir hagsmunir eru í húfi.“

Umframveiði ekki skýringin á döprum árangri við uppbyggingu þorskstofnsins

Fundurinn í kvöld mun snúast um fiskvernd. Hvers vegna stækkar ekki þorskstofninn þó nú séu kjöraðstæður í hafinu? Hafró segir ástæðuna vera langvarandi umframveiði.“
Gísli velti því fyrir sér hvort smávægileg veiði umfram ráðgjöf skipti svo miklu máli. Hann benti á að „í fjöldamörg ár hefur verið veitt umfram ráðgjöf í Rússlandi og enn veiða þeir þorsk. Ýsan hér var í nokkur ár „ofveidd“ og þá sérstaklega af þorskaflahámarksbátum, kannski er það ein ástæðan fyrir því að ýsukvótinn nú er í sögulegu hámarki 90 þús. tonn.“
Gísli sagði umframveiði því léttvæga skýringu á döprum árangri við uppbyggingu þorskstofnsins.
Hann sagði hins vegar ástæðu til að hafa áhyggjur af því hvað yrði um þorskstofninn þegar ástandið í hafinu versnaði miðað við góðæri sem ríkt hefði á sl. árum. „Við gætum orðið í afar slæmum málum ef umskipti verða“.
Gísli gagnrýndi að Hafró gæti ákveðið hversu mikið megi veiða af loðnu með því einu að keyra yfir svæðin, en þegar komið væri að þorskinum væru skoðanir manna á vettvangi hunsaðar. Ótrúlegt að ekki var tekið mark á mönnum í þorskmokinu fyrir nokkrum árum með því að auka kvótann, sagði Gísli og bætti við „að tími væri kominn til að Hafrannsóknastofnun virti fiskifræði sjómannsins“.

Ábendingar smábátaeigenda og útvegsmanna virtar að vettugi

Næst vék Gísli að ástandinu í Breiðafirði: „Til að fiskur stækki þarf hann að hafa nóg að éta. Nú hefur loðnan ekki komið í nokkur ár, rækjan horfin – þorskurinn át hana upp til agna eins og í öðrum fjörðum við landið. Einnig hvarf grásleppan, veiðin í firðinum frá 2000 vart svipur hjá sjón.
Nú er þorskurinn holdlítill. Á þetta hefur verið bent frá Snæfelli og Útvegsmannafélagi Snæfellsness, t.d. varðandi loðnuveiðarnar, að heimila þær ekki hér í Breiðafirði. Undirtektir Hafró afar rýrar svo ekki sé meira sagt.
Alvarleiki málsins væri þeim mun meiri í dag þegar viðurkennt væri að í Breiðafirði væri staðbundinn stofn, heldur en fyrir 10 árum þegar vísindamenn Hafró álitu einn þorskstofn vera við landið“, sagði Gísli.
Hann sagði flest benda til að þorskurinn væri hungraður við allt land, taka ætti tillit til þess. Það væri einsdæmi í veröldinni að veiða eins mikið af loðnu og hér, annars staðar er hún eingöngu veidd til manneldis en hér eru fleiri hundruð þúsund tonnum mokað í gúanó.

Verndunarstefnan – stórfelldur niðurskurðu í þorski

Í máli Gísla kom skýrt fram að hann telur Hafró ekki hafa staðið sig í að rannsaka þorskinn. Hann sagðist ekki andvígur að verndun eigi sér stað, en þegar ákvörðun er tekin verður að taka tillit til lífríkisins.
Hvað er verið að vernda? Hvað er lagt til grundvallar þegar ákvörðun um verndun er tekin, spurði Gísli. Gísli sagðist efins um að menn gerðu sér grein fyrir að ef Hafró væri samkvæm sjálfri sér, að vernda þorsk sem er 4 ára og yngri og er minni en 55 cm, þá væri ekki framundan annað en stórfelldur niðurskurður í þorski. Í skýrslu stofnunarinnar í maí 2004 var 4 – 6 ára þorskur 77% í afla miðað við fjölda. Þá var meðallengd 4 ára þorsks í ralli 51 cm. Mótsagnir eru því augljósar. Í skýrslunni kemur einnig fram að hlutfall 3 – 4 ára þorsks í veiði er áætlað 30% og horfur á 5 ára 54%. Það liggur því fyrir stórfelldur niðurskurður í þorski ef Hafró ætlar að vera samkvæm sinni verndunarstefnu.

Aðferðir við mælingar

Hvernig er staðið að ákvörðun um hvað skuli mæla? Gagnrýndi að ekki væri um tilviljunarkennd úrtök að ræða. Hann sagði „alltof oft valdir úr þeir sem eru með smæsta fiskinn. Lokað á svæði þar sem nánast eingöngu er ýsa, allir bátar nema einn með yfirgnæfandi af ýsu, en þorskbáturinn valinn og svæðinu lokað. Óþolandi vinnubrögð.
Krafa Snæfells er að veiðieftirlitsmenn Fiskistofu velji báta af handahófi. Valið verði áður en bátur kemur að landi.“

Fiskveiðar okkar stóriðja

Gísli lauk máli sínu með því að leggja áherslu á að fiskveiðar væru okkar lífsviðurværi hér á Snæfellsnesi „hér eru þær okkar stóriðja. Við verðum að sýna vísindamönnum aðhald, við verðum að þora að hafa skoðun.“