Kynþroska þorskur – svar sjávarútvegsráðherra

Í byrjun þessa mánaðar var greint frá fyrirspurn Einars Odds Kristjánssonar alþm. til sjávarútvegsráðherra um kynþroska þorsks. Sjávarútvegsráðherra hefur nú svarað Einari Oddi og er svar hans eftirfarandi:
„Fyrirspurnin hljóðar svo:
1. Hvert hefur verið kynþroskahlutfall fjögurra ára þorsks á árunum 4-20-1990?
2. Hvaða vísbendingar um vöxt og vaxtarhraða þorsksins gefa breytingar á kynþroskahlutfallinu?

Ráðuneytið sendi fyrirspurnina til Hafrannsóknastofnunarinnar og fylgir hér með svar hennar.
1. Kynþroskahlutfall þorsks eftir aldri er mjög breytilegt eftir svæðum. Mestur er munur á milli norður- og suðursvæðis en talsverður breytileiki er einnig innan hvors svæðis.
Við útreikninga á stærð hrygningarstofns er notað kynþroskahlutfall (nánar er þetta útskýrt á bls. 20–21 í Ástandsskýrslu fyrir fiskveiðiárið 4-20-2003, Hafrannsóknastofnunin, fjölrit nr. 97, sjá fylgiskjal) eins og það mælist í stofnmælingu botnfiska í marsmánuði. Í stofnmælingunni er notað veiðarfæri með smáriðnum möskva og fer gagnasöfnun fram á sömu stöðvum frá ári til árs. Hafsvæðinu er skipt í fjölda undirsvæða, kynþroskahlutfallið er metið á hverju undirsvæði og síðan reiknað meðaltal, vegið með magni, á hverju svæði fyrir sig. Niðurstöður fyrir fjögurra ára þorsk eru eftirfarandi:

Ár…………….% kynþroska
1990………. 1,20
1991………. 5,50
1992………. 6,20
1993………. 8,50
1994……….11,00
1995……….10,90
1996………. 3,10
1997………. 3,70
1998………. 6,10
1999………. 4,40
2000………. 6,50
2001………. 4,30
2002………. 8,60
2003………. 4,60
2004………. 3,80

2. Flestar kenningar um kynþroska fiska gera ráð fyrir að samspil vaxtar og veiða hafi áhrif á stærð við kynþroska. Þannig verður hraðvaxta fiskur kynþroska yngri en fiskur sem vex hægar. Tilgátan er sú að aukin afföll hafi jafnframt þær afleiðingar að kynþroski færist niður, þ.e. að fiskur verður kynþroska yngri og smærri. Fer það þó eftir lífssögu hverrar tegundar hvernig hún bregst við breyttum aðstæðum. Svo virðist sem þorskfiskar, svo sem þorskur og ýsa, fresti fremur hrygningu ef hart er í ári. Aftur á móti virðast sumar tegundir flatfiska ekki fresta hrygningu þó að næringarástand þeirra sé ekki eins og best verður á kosið.
Önnur kenning um kynþroska fiska er sú að eftir að kynþroska er náð hægi mjög á vexti og hann jafnvel stöðvist. Mörg dæmi eru um þetta hjá ferskvatnsfiskum og sumum sjávarfiskum. Þessi kenning byggist á orkutilfærslu. Fyrir kynþroska nýtist þá umframorka til vaxtar, þ.e. sú orka sem ekki þarf til hreyfingar og meltingar. Samkvæmt þessu fer umframorka að miklu leyti beint til vaxtar og þroskunar kynkirtla (hrogna og svila) eftir að kynþroska er náð. Erfitt hefur reynst að sýna fram á þetta í þorskfiskum. Þannig virðist þorskur sem vex hratt halda áfram að vaxa hratt eftir að kynþroska er náð. Útskýring á þessu er líklega að orkufjárfesting þorskfiska í hrygningu er mun minni en hjá mörgum öðrum tegundum, þ.e. hlutfallslega mikið af orkunni er áfram nýtt til vaxtar. Í þessu samhengi er rétt að fram komi að merkingar og endurheimtur á kynþroska þorski sem gerðar hafa verið hér við land, sýna að kynþroska þorskur hefur aukið þyngd sýna um 26–38% á ári.
Bundnar eru vonir við að áðurnefnd rannsókn á lífssögu þorsks muni varpa ljósi á samband vaxtar og veiða hjá þorski við Ísland á undanförnum áratugum.

Fylgiskjal.
2-1-2.2 Kynþroski.
Kafli úr fjölriti Hafrannsóknastofnunarinnar nr. 97.
(Júní 2003.)
Kynþroskahlutfall þorsks eftir aldri er mjög breytilegt milli svæða líkt og meðalþyngdir. Mestur munur er á milli norður- og suðursvæðis en talsverður breytileiki er einnig innan hvors svæðis. Kynþroskahlutfall er einnig háð stærð fisksins þannig að stærri fiskur er að jafnaði fyrr kynþroska en jafngamall og minni fiskur.
Kynþroskahlutfall í afla er reiknað út frá sýnum sem eru tekin úr afla á tímabilinu janúar–maí á þeim tíma sem best er að kynþroskagreina þorsk. Á fyrri hluta árs beinist töluverður hluti veiðanna að kynþroska fiski og lítið er veitt á þeim svæðum þar sem kynþroskahlutfall eftir aldri er lægst. Það, auk stærðarvals veiðarfæra, leiðir til þess að reiknað kynþroskahlufall í afla (tafla 5-1-3) er ofmat á kynþroskahlutfalli í stofninum, einkum hjá yngstu aldursflokkunum.
Kynþroskahlutfall í afla var mjög hátt árin 2001 og 2002 hjá öllum aldursflokkum (tafla 5-1-3), það hæsta sem mælst hefur hjá þriggja og fjögurra ára fiski og með því hæsta hjá öðrum aldursflokkum. Þetta, ásamt mikilli meðalþyngd eftir aldri í hrygningarstofni, leiðir til að framlag yngstu árganganna í hrygningarstofninn reiknast talsvert mikið.
Árin 2001 og 2003 var kynþroskahlutfall í stofnmælingu botnfiska mun lægra en 2002 og árið 2003 var kynþroskahlutfallið hjá yngstu árgöngunum nálægt meðaltali áranna 2-20-1985. Kynþroskahlutfall í stofnmælingunni er sýnt í töflu 6-1-3.
Tölur um kynþroskahlutfall í stofnmælingum eru, á sama hátt og tölur um meðalþyngd, ekki sömu annmörkum háðar og tölur fengnar úr lönduðum afla. Þær ber engu að síður að túlka með varúð. Ef mikil breyting verður frá ári til árs hvar mest veiðist af tilteknum aldursflokki, vegna breytinga á útbreiðslu eða vegna tilviljanakenndra breytinga á aflabrögðum, getur það haft áhrif á útreiknað kynþroskahlutfall. Kynþroskahlutfall í stofnmælingu er mun lægra en í afla eða um 1% á móti 12% hjá þriggja ára þorski og um 9% á móti 41% hjá fjögurra ára þorski. Raunveruleg stærð hrygningarstofns getur því verið verulega minni en hrygningarstofn metinn út frá meðalþyngdum og kynþroskahlutfalli í afla.“