Sala grásleppuhrogna á Vopnafirði í uppnámi

Vopnfirskir grásleppuveiðimenn sjá nú fram á óvissutíma varðandi sölu grásleppuhrogna. Þeir hafa í 3 áratugi selt grásleppuhrogn til „sama“ aðila. Niðursuðuverksmiðju K. Jónssonar á Akureyri, sömu verksmiðju undir nafninu Strýta eftir að Samherji keypti hana, á síðasta ári til Þýskalands eftir að fyrirtækið ákvað að láta dótturfyrirtæki sitt Hausman&Hahm í Cuxhaven framleiða grásleppukavíarinn.
Sl. sunnudag tilkynnti forsvarsmaður Pickenpack-Hausman&Hahm sem er í meirihlutaeigu Samherja og forsvarsmanna þess að fyrirtækið mundi engin grásleppuhrogn kaupa frá Íslandi.
Þessi tilkynning kemur á okkur eins og reiðarslag. Ætíð hafði verið um það rætt að ef annar hvor aðilinn hygðist hætta viðskiptum væri það tilkynnt með góðum fyrirvara. Nú þegar einungis er mánuður til vertíðar er ekki hægt að segja að það heit hafi verið efnt. Hér hafa allir gert ráð fyrir áframhaldandi viðskiptum við þessa aðila og því ekki leitað annað með sölu, sagði Sigurbjörn Björnsson forsvarsmaður grásleppukarla á Vopnafirði. Við munum á næstu dögum koma saman til fundar og ræða þá óvæntu stöðu sem upp er komin.