Sjávarútvegsráðuneytið svarar erindi LS um hrygningarstoppið

Nýverið barst LS svar við erindi sínu þar sem hrygningarstoppi var mótmælt. Sjá frétt http://www.smabatar.is/frettir/20-01-2005/445.shtml
Svar sjávarútvegsráðuneytisins er eftirfarandi: „Að fenginni meðfylgjandi umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar tilkynnir ráðuneytið, að það mun ekki breyta þegar útgefinni reglugerð.“
Tilvitnuð umsögn Hafró er eftirfarandi: „Í tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar til sjávarútvegsráðuneytisins dags. 21. febrúar 2003 um friðun hrygningarþorsks og skarkola á hrygningartíma er lagt til að veiðar verði ekki heimilar yfir töluvert lengra tímabil en núgildandi reglugerð kveður á um. Nánar tiltekið var lagt til, að innra austursvæði yrði lokað frá 1. apríl til 10. maí og innra vestursvæði frá 20. mars til og með 30. apríl. Í bréfi stofnunarinnar um þetta efni sagði eftirfarandi:
„Markmið með friðun hrygningarsvæða þorsks er tvíþætt. Annars vegar að gefa fiskinum frið á meðan á hrygningu stendur. Hins vegar að auka lífslíkur hrygningarfisks. Líkur eru á að friðun hrygningarsvæða í 3 vikur eins og verið hefur undanfarin ár nægi ekki til að ná þessum markmiðum. Þetta á einkum við um hrygningu stórfisks, þar sem hrygningin stendur lengi yfir.
Ofangreind tillaga tekur einnig mið af mismunandi hrygningartíma eftir hrygningarsvæðum og því að stór þorskur hrygnir að jafnaði fremur á grunnslóð. Stærð hrygningarstofns er nú sem næst í sögulegu lágmarki. Eins og áður hefur komið fram sýna rannsóknir, að frjósemi og lífslíkur lirfa stórþorsks virðist mun meiri en minni fisks. Hlutfall stórfisks í hrygningarstofni hefur farið hratt minnkandi. Hafrannsóknastofnunin telur því brýnt að stórþorskurinn fái enn meiri friðun á hrygningartíma en verið hefur.“
Hafrannsóknastofnun telur ekki að forsendur þessara tillagna hafi breyst. Varðandi breyttan hrygningartíma þá fylgist stofnunin grannt með því hvort um slíkt sé að ræða með reglubundinni sýnatöku. Jafnframt skal áréttað að eitt aðalmarkmið friðunar er að hvíla miðin þannig að undanþága einstakra veiðarfæraflokka gengi gegn því markmiði. Þá skal einnig áréttað að enn er hlutfall stórþorsks alltof lágt miðað við það sem var fyrr á árum. Hafrannsóknastofnunin telur því ekki að svo komnu máli tilefni til rýmkunar friðunaraðgerða á hrygningarslóð þorsks.“
Undir bréfið ritar Jóhann Sigurjónsson forstjóri.