Sektarlágmörk, 0-0-400 krónur, vegna fyrsta brots felld niður.

Á dagskrá Alþingis í dag er framhald 2. umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, um stjórn fiskveiða, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Örlygur Hnefill Jónsson og eru samflutningsmenn hans þingmenn úr öllum flokkum.
Frumvarpið gengur út á að breyta refsiákvæðum laganna, þ.a. við ákvörðun hámarkssektar vegna brota á lögunum skuli taka mið af eðli og umfangi brotsins. Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um lágmarkssekt við fyrsta brot á lögunum að upphæð 0-0-400 krónur verði fellt út. Meirihluti sjávarútvegsnefndar leggur hins vegar til að við ítrekað brot skuli sektin vera að lágmarki 400 þúsund en taka mið af eðli og umfangi brots.
Í gildandi lögum er ekkert svigrúm varðandi sektarákvæði. Þær eru, vegna fyrsta brots, að lágmarki 400 þúsund og að hámarki fjórar milljónir. Við ítrekað brot er hámarkssektin átta milljónir.
LS veitti umsögn við frumvarpið þar sem félagið lýsir sig sammála efni þess. Þar er vakin athygli á að LS varaði við þessu ákvæði við gerð laganna 1996.
Umsögn LS er eftirfarandi: „LS er sammála efni frumvarpsins og leggur áherslu á að það verði að lögum svo fljótt sem verða má.
Lög byggð á frumvarpinu munu leiða til meira réttlætis og skilvirkni. Eðli og umfang brota eru afarmisjöfn og eiga dómstólar að hafa möguleika á að ákvarða sektarupphæð með hliðsjón af því.
LS bendir á að með bréfi 7. mars 1996 og 2. maí 1997 veitti félagið umsögn um efni þess frumvarps sem hér er til skoðunar. Í tv. bréfi f. 2. maí segir í umsögn LS um 16. og 17. gr. frumvarpsins:
„LS ítrekar fyrri afstöðu sína, sem fram kom í athugasemdum við frv. Til laga um umgengni um auðlindir sjávar (7. mars 1996) og varða sektarákvæði.
LS telur að sektir taki mið af húftryggingarmati viðkomandi skips eða líklegu aflaverðmæti. Lágmarki á sekt telur LS ekki eiga rétt á sér. Dómstólar eiga að hafa tök á að ákveða sekt m.t.t. eðli brots.
Verði engar breytingar gerðar á því sem lagt er til í frumvarpinu mundu óhjákvæmilega koma upp tilvik þar sem sekt væri ekki í neinu samræmi við brotið. Má þar nefna sem dæmi yfirsjón við merkingu veiðarfæra.““

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.: Eðli máls samkvæmt geta brot á regluverki um fiskveiðar og sjávarnytjar innan fiskveiðilandhelginnar og utan lögsögu Íslands verið alvarleg og stórfelld og af ásetningi framin. En hitt er einnig til að brot þessi séu smávægileg eða af gáleysi sem ekkert réttlætir að sæti viðurlögum að lágmarki 0-0-400 kr.
Þetta er ekki í neinu samræmi við aðrar atvinnugreinar, eða aðra háttsemi þegnanna, þar sem kveðið er á um sektir og eru dómstólar fullfærir um að kveða á um sektir, eins og hér er lagt til að refsiramminn verði. Að óbreyttri löggjöf geta dómstólar ekki hnikað frá lágmarkssekt að fjárhæð 0-0-400 kr. og er það óásættanlegt. Líta verður til þess að þeir sem hafa atvinnu sína af sjómennsku og fiskveiðum eru fæstir það fjáðir að ekki muni um 0-0-400 kr. í rekstri. Einyrkjar sem róa smábát án mikilla aflaheimilda finna þungt fyrir lögbundnum viðurlögum ef þeir teljast sekir um brot, hvort heldur er af ásetningi eða gáleysi. Ætíð verður það þó svo að dómari sem dæmir í máli getur litið til alvarleika brots og hagsmuna sem það varðar þegar hann ákveður viðurlög. Er því tilgangur þessarar lagabreytingar að koma í veg fyrir að smávægilegar yfirsjónir kosti viðkomandi 0-0-400 kr. heldur geti dómstólar litið á hvert mál fyrir sig og ákveðið viðurlög innan rýmri refsiramma en nú er heimilt.“

Í nefndaráliti sjávarútvegsnefndar segir m.a:
„Nefndin tekur undir að umrædd sektarlágmörk geti í einstökum tilvikum leitt til ósanngjarnar viðurlagaákvörðunar af hálfu dómstóla. Þó er það álit nefndarinnar að almennt sé réttmætt að mæla fyrir um tiltölulega þung viðurlög við brotum á fiskveiðilöggjöfinni, einkum þegar um ítrekað brot er að ræða. Byggist þessi skoðun nefndarinnar á því að almennt verður að telja að fjárhagslegur hvati til brota á fiskveiðilöggjöfinni sé mikill og brotaleiðir jafnframt margvíslegar og því mikilvægt að varnaðaráhrif viðurlagaákvæða séu skýr og öllum augljós. Þá verður almennt talið að reglur sem settar eru til að stýra sókn í takmarkaða auðlind, eins og ákvæði íslenskra laga um stjórnkerfi fiskveiða, séu sérlega viðkvæmar fyrir hvers kyns brotum gegn þeim. Eru skýr og ótvíræð viðurlög því mikilvægur þáttur í að tryggja virkni laganna og virðingu fyrir þeim.
Með vísan til þessara sjónarmiða leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu sem fela í sér að einungis verði felld niður sektarlágmörk þegar um fyrsta brot á ákvæðum laganna er að ræða. Hins vegar verði með samræmdum hætti í þeim fjórum lagabálkum sem frumvarpið varðar mælt fyrir um 0-0-400 kr. lágmarkssekt ef um ítrekað brot er að ræða.
Nefndin lítur svo á að þessar breytingar gefi dómstólum almennt ekki tilefni til að beita lægri sektum vegna brota á lögunum en tíðkast hafa heldur er tilgangur breytinganna fyrst og fremst að tryggja að þeim sé unnt að gæta sanngirni þegar um fyrsta brot er að ræða og brot telst smávægilegt.“