Átti 2 mánuði í 8 ára aldur og var enn innan viðmiðunarmarka

Með veiðibanni í sunnanverðum Breiðafirði í nóvember sl. kviknaði umræða um viðmiðunarmörk Hafrannsóknastofnunar varðandi 4 ára þorsk, en 4+ er sá þorskur sem myndar veiðistofn hverju sinni. Lengdarviðmiðunarmörk stofnunarinnar við 4+ eru 55 cm. Reynist fjöldi þorska í afla styttri en 55 cm fara umfram 25% af heildarfjölda er heimilt að grípa til lokunar í því skyni að vernda ungviðið.
Sjómenn hafa oft gagnrýnt þessi mörk og segja þau of há. 5 og 6 ára þorskar nái ekki einu sinni þessum mörkum.
Sýnt hefur verið fram á að á sumum veiðisvæðum sé fiskur hægvaxta en á öðrum taki hann verulega við sér, jafnvel á stuttum tíma.

Félagsmaður sendi upplýsingar um merktan þorsk sem hann hafði veitt og sent til Hafrannsóknastofnunar. Stofnunin þakkað fyrir sig með fróðleik um þann merkta. Í ljós kom að hér var á ferðinni 7 ára gamall þorskur. Hann hafði verið merktur tæpum 2 árum fyrr (23 mánuðir í sjó) í Miðfirði. Þá var hann 40 cm langur. Þegar hann veiddist í Jökulfjörðum 23. október sl. var hann hins vegar orðinn 51 cm. Hafði lengst um 11 cm á 23 mánuðum. Þrátt fyrir að vanta aðeins rúma 2 mánuði í 8 ára aldurinn hafði hann því ekki enn náð 4 ára lengdarmörkum Hafrannsóknastofnunar – 55 cm.