Smábátaveiðar á dagskrá FAO – Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna

Sá merki áfangi náðist á COFI fundi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm í síðustu viku að fundurinn, sem er haldinn á tveggja ára fresti og fjallar eingöngu um sjávarútvegsmál, samþykkti leiðbeinandi reglur um umhverfismerkingar fyrir sjávarafurðir. Um 600 manns voru skráðir til þátttöku í COFI 2005.
IMG_0169.jpg
Smábátaveiðar í heiminum eru hins vegar að skapa sér meira rými í alþjóðlegri umræðu um sjávarútvegsmál. Þannig var fyrirferðamikill dagskrárliður á COFI um smábátaveiðar undir liðnum “Stuðningur við smábátaveiðar með bættum aðstæðum”. Skýrsluna sem lá fyrir fundinum, “Aukið framlag smábátaveiða til að draga úr fátækt og auka öryggi fæðuframboðs” má nálgast á vef FAO á slóðinni
ftp://ftp.fao.org/FI/DOCUMENT/COFI/COFI_26/default.htm

Fjöldi frjálsra félagasamtaka á COFI

Áhuginn almennt fyrir gengi smábátaútgerðar í heiminum fer sífellt vaxandi. Fjöldi þjóða tók þátt í umræðum um dagskrárliðinn, svo og opinber og frjáls félagasamtök.
Hlutur smábátaveiðanna í heiminum er yfirgnæfandi – um 90% af fiskimönnum heimsins eru smábátasjómenn og um 50% af sjávarafla sem notaður er beint til manneldis kemur af þessum flota.

Talið er að u.þ.b. 1 milljarður jarðarbúa lifi af minna en sem samsvarar einum Bandaríkjadal á dag. Þar af er áætlað að 840 milljónir búi við vannæringu eða hungur. Af þessum ástæðum hefur FAO og fjöldi félagasamtaka litið til smábátaveiðanna sem vopns í baráttunni við þessar staðreyndir.

FAO áætlar að um 38 milljónir manna séu fiskimenn eða stundi einhverskonar fiskrækt. Að auki telur stofnunin að 114 milljónir séu í afleiddum störfum – framleiðslu, dreifingu og verslun sem þýðir að um 152 milljónir manna tengjast fiskveiðunum beint. Við þetta bætast milljónir manna sem ekki falla undir almennar skilgreiningar en eiga engu að síður mikið undir tímabundinni nýtingu á fiskistofnum. Talið er að í þróunarlöndunum séu um 234 milljónir manna sem stóla á fiskveiðar.

Staða smábátasjómanna i heild mjög bágborin

Mikill meirihluti smábátasjómanna heimsins búa við fátækramörk og eiga litla möguleika til betra lífs. Stöðug fjölgun báta á stórum hafsvæðum hefur gert að verkum að veiðar á hefðbundnum slóðum dregst saman og þá búa þeir víðast við algert óöryggi um aðganginn að fiskimiðunum.

Arthur Bogason, formaður LS sem jafnframt er formaður Alþjóðasamtaka strandveiðimanna ávarpaði COFI undir þessum dagskrárlið. Í máli sínu lagði hann höfuð áherslu á þrennt:

1. Að brýna nauðsyn bæri til að skilgreina réttindi strandveiðimannanna, hvernig svo sem það væri gert: kvótum, sóknardögum, veiðileyfum eða sérstakri landhelgi. Slíkt hlyti að taka mið af aðstæðum.
2. Að skapa strandveiðimönnum þannig markaðsumhverfi að þeir fái sanngjarnt verð fyrir aflann. Sem dæmi nefndi hann að fyrir fáeinum dögum voru fiskimenn á Sri Lanka að landa dágóðum afla af túnfiski. Þeir fengu 1 dollara fyrir kílóið.
3. Að menntamálum þeirra yrði sinnt og FAO myndi koma þar að málum með sína sérfræðiþekkingu.

FAO stóð fyrir tveimur skipulögðum fundum um smábátamálin utan hefðbundinnar dagskrár. Þeir voru vel sóttir og endurspegla að alþjóðasamfélagið er að vakna til vitundar um mikilvægi smábátaútgerðarinnar og þýðingu hennar í fjölmörgu tilliti.