Eftirlitsiðnaðurinn þungur baggi

Á fundi stjórnar LS 16. mars sl. var mikil umræða um eftirlitsiðnaðinn. Flestir stjórnarmenn tjáðu sig um efnið og töldu ástandið fara versnandi. Hugmyndaflugið væri með ólíkindum um það sem mönnum kæmi í hug að nauðsynlegt væri að skoða og hafa eftirlit með.
Guðmundur Lúðvíksson fulltrúi Fonts sagði einstaklingsútgerðir hreinlega ekki standa undir eftirlitsáráttunni. Þá sagði hann dæmi um stærri fyrirtæki sem væru krafin um á annan tug milljóna til að greiða í eftirlitsiðnaðinn. Guðmundur sagði mjög brýnt að breyting yrði þarna á. Í dag mætti líkja þessum iðnaði við verstu náttúruhamfarir svo þungt legðist hann á fyrirtæki.