Það er ekki laust við að hornfirskum trillukörlum þyki súrt í broti að komast ekki á sjó í dag. Flestum kemur sjálfsagt fyrst í hug hið lága fiskverð sem hrellt hefur þá sem aðra sjómenn undanfarið, en svo er ekki. Ástæðan kemur fram í bréfi því sem hér birtist og sent var af hornfirskum trillukarli fyrir stundu:
‘þriðjudagur, 22. mars 2005
Það er logn,
það er heiðskírt
og allur Hornafjörðurinn er einn spegill.
En við trillukarlar á Hornafirði komumst ekki á sjó því úthafsaldan lokar leiðinni um Ósinn fyrir okkur á smábátunum.
Ölduhæðin er 2,5 metrar sem er svo sem frekar venjulegt á vetrartíma,( fer að vísu oft miklu hærra og nú í síðasta mánuði uppí 11 metra) .
Það koma oft brot á Grynnslunum þegar ölduhæðin er yfir 2,0 metra, svo við setjum okkur tvo metrana sem viðmið hvort við róum til fiskjar eða ekki. Margir okkar hafa séð ýmislegt í og við Ósinn og við berum fulla virðingu fyrir þeim kröftum sem þar hreyfa sig til og reynum að forðast að vera nálægt ólögum þar. En þess vegna er okkur svo mikilvægt trillukörlunum hér að geta róið til fiskjar þegar sjóveður er og úthafsaldan lokar ekki Ósnum. Þess vegna þurfum við Hornfirðingar að fá heimild til að róa með handfærum alla daga ársins’.
Það er erfitt að lá hornfirskum trillukörlum þær vangaveltur, hvort ekki sé hægt að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna þegar verið er að sjóða saman lög og reglur um hryngningastopp og hvaðeina. Mun í bígerð að skrifa sjávarútvegsráðherra bréf vegna þessa.
Mynd Horn.is