Meirihluti sjávarútvegsnefndar hafnar beiðni LS um lagfæringar á lögum um stjórn fiskveiða.

Á þriðjudegi í dimbilviku fór fram 2. umræða um frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Hér á síðunni hefur verið fjallað um umsögn LS við frumvarpið http://www.smabatar.is/frettir/04-03-2005/472.shtml

Það eru mikil vonbrigði að meirihluti sjávarútvegsnefndar komi ekki til móts við LS í atriðum sem verða að teljast hrein og bein réttlætismál sbr. að heimila krókaaflamarksbátum gildruveiðar.

Guðjón Hjörleifsson formaður nefndarinnar mælti fyrir áliti sjávarútvegsnefndar http://www.althingi.is/raeda.php4?raeda=/03-1-1/r8-8-2214.sgml
Hjá honum kom m.a. fram að nefndin legði til að veiðileyfi gildi ótímabundið, en falli niður ef fiskiskip er tekið af skrá hjá Siglingastofnun eða að eigendur eða útgerðir þess fullnægja ekki skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Þetta atriði, verði það að lögum, mun hafa í för með sér hagræðingu, auk þess sem það lækkar kostnað smábátaeigenda.

Einnig tók til máls í 2. umræðu um frumvarpið Jón Gunnarsson,
http://www.althingi.is/raeda.php4?raeda=/03-1-1/r1-2-2214.sgml en hann skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara, hjá honum komu fram vonbrigði með að ekki væru lagfærðir fleiri þættir í lögunum. Nefndi hann þar m.a. sem dæmi, framkvæmd ákvæðis um línuívilnun þar sem skilyrt er að landa í sömu höfn og línan var tekin um borð, að þeir bátar sem beita með beitningatrekt um borð og stokka línuna upp í landi mundu einnig njóta línuívilnunar, auk þess að skoðað yrði hvort rétt væri að leyfa gildruveiðar í krókaaflamarki.

Á dagskrá Alþingis í dag kl 10:30 er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umræðu um málið.