Styrja veiðist í gráslepputrossu út af Grindavík, verðmæti hrognanna úr einni hrygnu um 3 milljónir

Skipverjar á smábátnum Aðalsteini S. GK 413 ráku heldur betur upp stór augu þegar þeir voru að draga gráslepputrossur rétt sunnan Grindavíkur nú í morgunsárið. Í einu netinu, sem var uppvafið og gauðrifið hékk föst stærðarinnar ókunnugleg skepna sem þeir áttuðu sig þó fljótlega á hvers kyns var. Um var að ræða styrju sem var hvorki meira né minna en tæpir 3,4 metrar á lengd. Við komuna til hafnar beið þeirra sérfræðingur frá Hafrannsóknarstofnuninnni og komst hann að þeirri niðurstöðu að þetta væri styrja af ættinni Acipenser Sturio og er þetta í fimmta skipti svo vitað sé að styrja flækist til Íslands frá 1757.

En fengurinn átti eftir að reynast meira en sjaldgæfur. Hér var um hrygnu að ræða og hún belgfull af hrognum. Heildarþyngd skepnunnar var um 270 kg og þar af vógu hrognin ein og sér um 120 kg, sem er jafnvel hærra hlutfall en hjá grásleppu á þessum tíma. Eins og kunnnugt er, er styrjukavíar ein dýrasta lúxusmatvara í heimi og má áætla að verðmæti hrognanna sé um eða yfir 3 milljónir króna úr þessum eina fiski. Þetta er sannarlega óvænt og gleðileg uppbót á verðið sem þeir fengu fyrir grásleppuhrognin, sem hafa lækkað verulega á milli ára.

Með hlýnandi veðurfari hefur borið æ meira á sjaldgæfum fiskum við Íslandsstrendur, samfara því að sumar hefðbundnar fisktegundir hafa aukið mjög útbreiðslu sína. Bestu dæmin um hið fyrrnefnda eru lýr (sem veiddist einnig í gráslepputrossu í Bakkaflóa í maí 2004), silfurbrami og hornfiskur, tegundir sem jafnvel eiga helst heima í Indlands- og Kyrrahafi. Um hið síðarnefnda má sérstaklega geta skötuselsins sem veiðist nú nánast hringinn í kringum landið, en var áður svæðisbundinn við suðurströndina.

Hver veit nema að styrjan fari nú að nema hér “land” í auknum mæli til mikilla búbóta fyrir sjómenn. Á hinn bóginn má vænta að laxveiðimenn líti slíka þróun ekki jafn jákvæðum augum, því styrjan verður að komast í ferskvatn til að hrygna og er þekkt fyrir að hreinsa allt sem fyrir er þegar hún á annað borð gengur í árnar, sem er á svipuðum tíma og hávertíðin er í laxveiðinni.

Myndin sýnir áhöfnina á Aðalsteini S. Við höfnina í Grindavík nú seinnipartinn.

Styrja Grindavík.tiff