Lítið veiðist af grásleppu.

Frá N-Austurhorninu berast þær fréttir að grásleppuveiðar hafi farið afar illa af stað. Að sögn Braga Sigurðssonar á Húsavík er búið að draga einu sinni og var nánast ekkert í netunum. Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem verið hefur á sl. vertíðum sem skiluðu mestu í upphafi.
Á Bakkafirði var Stefnir Magnússon fyrir svörum. Hann sagði veiðina vera blettótta. Á dýpinu þar sem veiði er yfirleitt best á þessum tíma er ekkert að hafa, en þeir sem hafa lagt í fjörurnar hafa uppskorið sæmilega veiði. Sömu sögu væri að segja frá Vopnafirði.
Stefnir sagði mikla óánægju vera með þau verð sem heyrst hefðu. Á bryggjunni væru menn farnir að ræða það sín á milli að líklega væri best að bregðast við því, með að draga upp.