64. Fiskiþing – „Upplýsingar í markaðssetningu“ er þema þingsins

Fiskiþing – 64. í röðinni verður haldið á morgun, föstudaginn 8. apríl, á Radisson Hótel Sögu og hefst kl 13:00. Fiskiþing er opið málþing um málefni sem varða sjávarútveginn og íslenskt þjóðarbú.
„Upplýsingar í markaðssetningu – Hvernig á að láta neytendur vita?“, er yfirskrift þessa Fiskiþings. Fjallað verður um hvernig mæta skal kröfum kaupenda um hvernig staðið er að veiðum á þeim afla sem sjávarafurðir eru unnar úr. M.a. verður gerð grein fyrir nýlegri samþykkt fiskimálanefndar FAO (CoFi) um alþjóðlegar reglur um umhverfismerki sjávarafurða, sem Íslendingar hafa unnið ötullega að.
Fiskiþing hefst með ávarpi formanns Fiskifélags Íslands, Péturs Bjarnasonar. Sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, ávarpar því næst þingið. Þá flytja eftirtaldir erindi:
Edmund Mikkaelsen jr., frá Norska útflutningsráðinu – „Hvað vilja kaupendur vita?“
Kristján Þórarinsson, LÍÚ – „Samvinna um umhverfismerki“
Jónas Engilbertsson, Icelandic Germany – „Sýn af markaði“.

Fiskiþingi lýkur með pallborðsumræðum sem Sigmundur Ernir Rúnarsson stýrir. Þátttakendur þar, auk þeirra sem erindi fluttu:
Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs ehf.
Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja hf.
Árni Bjarnason, formaður FFSÍ.

Fiskiþing er opið öllum og ástæða að hvetja fólk til að mæta og fræðast um það sem boðið er upp á.