Togararallið 2005, gefur ekki rétta mynd af ástandinu

„Niðurstöður togararallsins koma mér ekki á óvart, nema fyrir það hversu „góðar“ þær eru“ sagði Alfreð Sigmarsson útgerðarmaður á Seyðisfirði.AlfreðSigm.jpg Alfreð hefur unnið á vettvangi þorsksins allan sinn starfsferil sem spannar 40 ár. Hann sagði að alls staðar af landinu bærust þær fréttir að öll náttúran væri fyrr á ferðinni en í meðalári. Grásleppan komin upp í fjöru, fiskur genginn inn í firði og flóa einum, tveim og jafnvel þrem mánuðum fyrr en venjulegt væri. Ufsatorfur væru komnar í höfnina á Seyðisfirði nú um 20. apríl en ekki í lok maí eins og verið hefur undanfarin ár. Þá hefðu hlýindin í vetur ekki farið fram hjá mönnum, allir mánuðir langt yfir meðallagi í hita. Undrast Alfreð að vísindamenn skuli ekki taka tillit til þessara staðreynda við túlkun á niðurstöðum togararallsins, sagði það hneyksli og kallar á spurningu um vanhæfni.
Þá sagðist Alfreð hvorki skilja upp né niður í þeirri staðhæfingu Hafrannsóknastofnunar um að dapurt ástand þorskstofnsins væri allt því að kenna að stjórnvöld hefðu ekki fylgt tillögum stofnunarinnar. Veidd hefðu verið 600 þús. tonn umfram ráðgjöf og látið að því liggja að það væri ástæðan, sbr. sjöfréttir Sjónvarpsins á sumardaginn fyrsta. „Hverslags bull er þetta?“ sagði Alfreð og var nú orðinn verulega æstur í viðtalinu sem hann veitti smabatar.is. „Hver haldiði að trúi því að 29 þúsund tonn á ári skipti einhverju máli. Spyrja mætti á móti, hvers vegna hafði það ekki áhrif á ráðgjöfina 1986 þegar veidd voru 123 þúsund tonn, eða rúm 60% umfram ráðgjöf, ekki lagði stofnunin til minnkun það árið, heldur bætti hún í ráðgjöfina um 100 þúsund tonn, fór í 300 þúsund. Þeir héldu sig við 300 þús. tonna ráðgjöf í 4 ár þrátt fyrir að veitt hafi verið umfram hvert einasta ár, eða alls 286 þúsund tonn. Mér var allavega kennt að það minnkaði sem af væri tekið. En sú speki gilti greinilega ekki á þeim árum hjá Hafró.“
Alfreð sagði tíma til kominn að talsmenn Hafrannsóknastofnunar byðu Íslendingum upp á vandaða umfjöllun sem tæki mið af sjálfsgagnrýni en ekki eingöngu því að þetta væri allt stjórnvöldum að kenna. Þeir væru t.d. með allt niður um sig varðandi flottrollsveiðarnar, lýstu því yfir að þær væru varasamar, um leið og vantaði rannsóknir, en þyrðu ekki að koma með tillögu um að stöðva þetta gjöreyðingarveiðarfæri innan 50 sjómílna þar til það lægi fyrir að það væri með öllu óskaðlegt lífríkinu.