Sömu sögu er að segja af grásleppuveiðum í Grænlandi og Noregi og greint hefur verið frá að sé hér á landi.
Í Noregi er veiðin 14% minni en á sama tíma í fyrra. Allt útlit er því fyrir að heildarveiði þar verði ekki meiri en 4000 tunnur.
Á Grænlandi er veiði hafin á Suður- og Miðsvæði og hefjast innan skamms á Norðursvæði. Veiðin er mun minni en í fyrra og því útlit fyrir samdrátt. Miðsvæðið (í kringum Nuuk) gaf best á sl. ári en nú er veiði þar mun lakari. Þá eru veiðar langt komnar á Suðursvæðinu og ljóst að þær skila minna á land en á vertíðinni 2004. Grásleppuveiðimenn á Grænlandi eru því ekki bjartsýnir á góða vertíð, þó veiðar séu ekki enn hafnar á Norðursvæði þar sem veiði brást þar í fyrra.
Þegar tekið er mið af þessum fréttum er fyrirsjáanlegt að heildarveiði mun minnka verulega frá því á sl. ári. Hvaða áhrif það hefur á verð er erfitt að segja til um en vitað er um grásleppuveiðimenn hér á landi sem ansa ekki tilboðum lægri en 60 þús. fyrir tunnuna. Vonir þessara aðila um viðunandi verð ættu því að glæðast við þessar fréttir.