Ráðstefna um málefni smábáta á Norðurlöndum

Þann 4. maí s.l. lauk í Grenaa í Danmörku tveggja daga ráðstefnu sem efnt var til og skipulögð af Norrænu ráðherranefndinni. Fjallað var um stöðu smábáta og strandveiða á Norðurlöndum og var yfirskriftin „Dáð eða dauði“, en staða smábátaveiðanna á svæðinu á í heild undir högg að sækja. Þetta er í fyrsta skipti sem Norræna ráðherranefndin efnir til slíkrar umfjöllunar um þessi mál.

Hátt í 150 manns sóttu ráðstefnuna og þótti hún takast með ágætum. Fulltrúar smábátaeigenda og ráðherrar eða embættismenn frá öllum Norðurlöndunum héldu erindi. Landssamband smábátaeigenda sendi sex félagsmenn til þátttöku og hélt formaður LS erindi um stöðu smábátaveiða á alþjóðlegum vettvangi sem og að gera grein fyrir þróun mála hérlendis.

Heimasíða ráðstefnunnar er þessi: http://www.norden.org/fisk/aktiviteter/sk/kustfiskekonf_maj2005.asp en þar er að finna mörg þeirra erinda sem flutt voru. Þá skal vakin athygli á nýrri skýrslu sem unnin var fyrir ráðstefnuna og er að finna á heimasíðunni: „Ny rapport om kystfisket ‘Nordisk kystfiskeri i det nye århunderede?’
Það vekur undrun við lestur skýrslunnar hversu mikið er þar að finna af hreinum staðreyndavillum.

Fyrir ráðstefnuna var samin yfirlýsing í samvinnu nokkurra smábátafélaganna sem skrifa skyldi undir síðari dag ráðstefnunnar. Fljótlega kom í ljós að Svíar höfðu engan áhuga á sameiginlegri yfirlýsingu og Finnar og Danir voru frá upphafi mjög tvístígandi yfir því að skrifa undir áskorun til stjórnvalda á Norðurlöndum þess eðlis að réttindi strandveiðanna væru tryggð og þær stryktar í sessi. Fór svo að undir yfirlýsinguna skrifuðu Grænlendingar, Íslendingar, Færeyingar, Norðmenn og Álandseyingar, ásamt Samtökum strandveiðimanna í Norður Atlantshafi og Alþjóðasamtökum strandveiðimanna.

Gerð var ítarleg tilraun til að breyta orðalagi þannig að Finnar og Danir treystu sér til að skrifa undir og stendur sú tilraun enn yfir. Ástæðan fyrir þessum tvístíganda er sá að í þessum löndum, ásamt Svíþjóð, eru stórir sem smáir í sama félagi og óttinn við að styggja virtist öllu yfirsterkari.

Yfirlýsingin verður birt hér á síðunni innan skamms.