Frumvarp um áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsins til meðferðar í sjávarútvegsnefnd.

Eitt þeirra frumvarpa sem sjávarútvegsnefnd Alþingis fékk til meðferðar á sl. vetri fjallaði m.a. um áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsins og viðkomu fiskstofna. Frumvarpið er flutt af 7 þingmönnum Samfylkingarinnar, þeim Jóhanni Ársælssyni, Össuri Skarphéðinssyni, Jóni Gunnarssyni, Kristjáni L. Möller, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur og Merði Árnasyni. Sjá frumvarpið í heild: http://www.althingi.is/altext/131/s/0250.html

Sjávarútvegsnefnd óskaði eftir umsögn LS við frumvarpið og birtist hún hér orðrétt:
„Landssamband smábátaeigenda (LS) styður framkomið frumvarp. LS lítur svo á að með frumvarpinu sé verið að halda áfram með og útfæra nánar þá stefnu sem sjávarútvegsráðherra markaði með framlagningu frumvarps um línuívilnun og Alþingi afgreiddi sem lög. Þar var vistvænt veiðarfæri – lína – skilið frá öðrum veiðarfærum og aflinn reiknaður með afslætti til kvóta. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að þessi aðferð nái til fleiri vistvænna veiðarfæra.
Það hefur lengið verið skoðun LS að í stjórnkerfi fiskveiða, þar sem ekki er umbunað fyrir notkun á vistvænum veiðarfærum, sé verið að mismuna útgerðaraðilum. LS telur frumvarpshöfundum ganga það til að vinna að leiðréttingu þessa mismunar. LS gengur út frá því að við slíka leiðréttingu verði byggt á núverandi stjórnkerfi fiskveiða og styður breytingar sem byggja á því.

Aðalfundir LS hafa ályktað um þetta efni árum saman. Á 20. aðalfundi 2004 var samþykkt eftirfarandi:
„Í því ljósi að íslensk stjórnvöld líta í auknum mæli til þess sem ráðandi markaðsaðilum í sölu matvæla þóknast og þykir um fiskveiðistjórnun og beitingu veiðarfæra, fagnar LS lögum frá Alþingi í árslok 2003 um línuívilnun.
Þótt LS lýsi miklum vonbrigðum með útfærslu laganna er það engu að síður fagnaðarefni að eftir áralanga baráttu fyrir því að fá viðurkenningu stjórnvalda á veiðarfæri sem flestum ber saman um að sé vistvænt, náði það fram að ganga.
Þessi þróun er í fullkomnu samræmi við ályktanir LS til fjölda ára og nú, þegar ljóst er að stærsta matvöruverslunarkeðja heims hefur lagst á sveif með línuveiðum, skorar LS á yfirvöld að halda áfram á sömu braut. Fyrsta skrefið felst í því útfæra línuívilnun með þeim hætti sem lagt var upp með og leggja af útúrsnúninga á hugmyndinni.
Á austurströnd Bandaríkjanna er uppi athyglisverð þróun. Ein vinsælasta veitingahúsakeðjan á svæðinu er að stíga fyrstu skrefin í átt til samstarfs við Samtök krókaveiðimanna á N-Austurströnd Bandaríkjanna um hráefnisöflun. Fyrirtækið hyggst með þeim hætti tengja sjálfbæra veiðiaðferð og meðvitaða neytendur um umhverfismál. LS telur einsýnt að þessi hugsun muni einkenna markaðs- og neytendavitund í komandi framtíð og því fyrr sem Íslendingar gera hana að sinni, því meir mun þjóðin hagnast.
LS vill í þessu sambandi ítreka fyrri áskoranir sínar um að hrint verði í framkvæmd öflugum rannsóknum á umhverfisáhrifum veiðarfæra. Tómlætið gagnvart þessum rannsóknum gerir stöðu okkar sýnu verri meðan engin kortlagning er til af Íslandsmiðum þar sem þeim er skipt með tilliti til umhverfisáhrifa veiðarfæra.
Meðan rannsóknir sýna ekki fram á annað er það sannfæring LS að forsenda aukinna þorskveiða á Íslandsmiðum sé að draga stórlega úr notkun snurvoðar til bolfiskveiða og banna togveiðar á fiski innan 12 mílna landhelginnar.“
Á 20. aðalfundi LS var einnig samþykkt:
„Landssamband smábátaeigenda leggur til að handfærabátar fái 20% ívilnun í þorski.“

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til viðbót við 1. mgr. laga um stjórn fiskveiða. Aukin áhersla verði lögð á að ávallt skuli stuðst við bestu fáanlegu þekkingu við ákvörðun um stjórn veiða og úthlutunar veiðiheimilda, svo og samspili milli einstakra tegunda á vistkerfið og mismunandi áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsins. Í lok greinarinnar er bent á að við úthlutun veiðiheimilda og stjórn veiða skuli taka mið af þjóðhagslegri hagkvæmni af nýtingu einstakra veiðistofna.
LS samþykkti á nefndum 20. aðalfundi að stórauka þyrfti rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra. Þá telur félagið þær auknu áherslur sem lagðar eru til í greininni styrkja og stuðla frekar að því markmiði sem lögum um stjórnkerfi fiskveiða er ætlað að ná.“