„Hágengisnefnd“ skilar niðurstöðum – lækkun veiðigjalds bætir ekki hag fiskvinnslunnar.

Sjávarútvegsráðuneytið sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem birt er niðurstaða nefndar sem ráðherra skipaði til að meta áhrif hás gengis á sjávarútveginn.

Fréttatilkynningin er eftirfarandi:
„Hinn 10. janúar 2005 skipaði Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, nefnd til þess að fjalla um sjávarútveginn og hátt gengi krónunnar. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir m.a.:
,,Nefndinni er ætlað að gera úttekt á stöðu sjávarútvegsins í ljósi þeirrar hækkunar sem orðið hefur á gengi íslensku krónunnar og væntinga um að gengið haldist áfram hátt um nokkurn tíma. Nefndinni er einnig ætlað að fjalla um áhrif mismunandi hagstjórnaraðgerða á stöðu sjávarútvegsins og hvort ástæða sé fyrir stjórnvöld að bregðast með einhverjum hætti við þeirri stöðu sem atvinnugreinin verður í.“
Í nefndina voru skipaðir Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskóla Íslands, sem var jafnframt formaður; Loftur Ólafsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og Davíð Ólafur Ingimarsson, hagfræðingur og starfsmaður sjávarútvegsráðuneytisins.
Nefndin kom fyrst saman þann 12. janúar 2005 og hélt 14 fundi, hinn síðasta 12. maí 2005.
Helstu niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:

Staða sjávarútvegs og gengisþróun

Hátt gengi krónunnar á fyrsta fjórðungi ársins leiddi til þess að sjávarútvegsfyrirtæki bjuggu við fremur erfið rekstrarskilyrði. Hátt afurðaverð á erlendum mörkuðum bætti þó nokkuð úr skák. Búast má við að vinnsla sjávarafurða sé í hvað þrengstri stöðu af undirgreinum sjávarútvegs og má reikna með að litlum sem engum hagnaði verði til að dreifa þar miðað við gengi á fyrsta ársfjórðungi.
Ef gengi krónunnar verður svipað á árinu 2005 og það var á fyrsta fjórðungi ársins, þá reiknar fjármálaráðuneytið með framlegð sjávarútvegs sem nemur 12,6% af tekjum og að hreinn hagnaður verði rúm 2% af tekjum. Þetta er svipuð afkoma og var á árunum 0-20-1991, en töluvert lakari en á undanförnum fjórum árum.

Hugsanlegar aðgerðir

Ein meginástæðan fyrir hækkun á gengi krónunnar er hækkun á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Bankinn á hins vegar engra annarra kosta völ en að hækka vexti til að draga úr eftirspurn og halda verðbólgu í skefjum. Nefndin leggst eindregið gegn því að gripið verði inn í aðgerðir Seðlabankans.

Til að Seðlabankanum gefist svigrúm til að draga úr aðhaldi peningastefnunnar er brýnt að beita fjármálastefnu ríkisins til að draga úr eftirspurn. Dæmi um slíkar aðgerðir eru frestun stórframkvæmda og skattalækkana. Jafnframt má móta stefnu um að ráðstafa tekjum af einkavæðingu fremur til niðurgreiðslu á skuldum en að nota þær til viðbótarútgjalda.

Ný íbúðalán banka og sparisjóða til íbúðakaupa hafa leitt til mikillar hækkunar á húsnæðisverði. Breytingin á þessum markaði gefur tilefni til að endurhugsa hlutverk Íbúðalánasjóðs. Það er óheppilegt að ríkið standi í samkeppni við einkaaðila til langtíma á lánamarkaði og þessi samkeppni er ein gildasta rót þess að verðbólga hefur farið fram úr þolmörkum.

Veiðigjald sem svarar til 0,7% af útflutningsverðmæti sjávarafurða var lagt á í fyrsta sinn á yfirstandandi fiskveiðiári. Lækkun veiðigjalds bætir ekki hag fiskvinnslu, sem stendur þó hvað höllustum fæti af undirgreinum sjávarútvegs. Jafnframt þarf að mæta lækkun veiðigjalds með hækkun annarra skatta eða minni útgjöldum ríkisins til að draga ekki úr aðhaldi í ríkisfjármálum. Nefndin leggur ekki til að veiðigjaldi verði breytt.“

Bent skal á að hægt er að nálgast skýrslu nefndarinnar í heild á slóðinni:
http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/utgefid-efni/nr/978