Bann við löndun óslægðs afla dagróðrarbáta um helgar á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2005

Fiskistofa hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:
„Á tímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst ár hvert er ekki heimilt að landa óslægðum fiski af dagróðrarbátum á laugardögum og sunnudögum, sbr. 5. tl. 1. kafla Viðauka 1 og 2. tl. kafla I Viðauka 4 í reglugerð nr. 9-19-233, sbr. 2. og 3. gr. reglugerðar nr 0-20-387.

Fiskistofa getur veitt undanþágu frá þessu banni, enda verði sýnt með óyggjandi hætti fram á að skilyrði um slægingu í landi séu uppfyllt, eins og kveðið er á um í reglugerðinni.

Fiskistofa heimilar löndun óslægðs afla af dagróðrarbátum um helgar á fyrrgreindu tímabili, einungis hjá þeim fyrirtækjum sem undirritað hafa yfirlýsingu þess eðlis að slæging muni fara fram innan 12 stunda frá því að afla er landað, jafnt um helgar sem aðra daga. Yfirlýsingin skal staðfest af Fiskistofu og höfð til sýnis þar sem sjómenn og eftirlitsmenn geta gengið úr skugga um að viðkomandi hafi leyfi til að taka á móti óslægðum afla um helgar á umræddu tímabili. Löndun óslægðs afla hjá öðrum aðila en þeim sem fengið hafa staðfesta undanþágu, er óheimil og á ábyrgð viðkomandi skipstjóra.

Undanþágan gildir aðeins gagnvart bátum sem hafa veiðiheimild og gilt starfsleyfi (IS-númer).

Frestur til að sækja um undanþágu er til 1. júní 2005 .