Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 20. maí sl.
„Grásleppuvertíðin sem nú stendur yfir er um margra hluta sakir nokkuð sérstök. Hefðbundið er óvissa með veiði, tíðarfar og verð á hrognunum. Nýjung er það að veiðitími var styttur um þriðjung, samkvæmt ósk veiðimanna, með það að markmiði að draga úr framboði. Ástæða þess var að veiði á vertíðinni 2004 fór nokkuð fram úr því sem hrognamarkaðurinn þurfti. Það hafði þær afleiðingar að einstaka grásleppuveiðimenn áttu í miklum vandræðum að losna við afrakstur vertíðarinnar á ásættanlegu verði. Það var ekki fyrr en stutt var til vertíðar nú að allt seldist og var söluverð allt að 30% lægra en mest hafði fengist á vertíðinni.
Landssamband smábátaeigenda hefur frá árinu 1989 haft frumkvæði að því að boða til upplýsingafunda um stöðu og horfur á grásleppuhrognamarkaðinum. Fundirnir eru haldnir í byrjun febrúar ár hvert. Þá hafa setið fulltrúar sjómanna frá flestum þeirra þjóða sem veiða grásleppu. Auk okkar eru það Norðmenn, íbúar Nýfundnalands og Grænlendingar. Þá taka einnig þátt í þessum fundum framleiðendur grásleppuhrognakavíars sem nú, auk innlendra framleiðenda, komu frá Frakklandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Danmörku, Spáni, Noregi, Kanada og Bandaríkjunum. Met þátttaka var á fundinum í febrúar sl. Þar tilkynntu fulltrúar veiðimanna um samkomulag sem þeir höfðu undirritað og fólst í að gera ráðstafanir sem mundu leiða til minni heildarveiði. Þeir skyldu þannig leggja sitt lóð á vogarskál stöðugleikans. Ákveðið var að stefna að því að grásleppuvertíðin 2005 mundi ekki skila meiru en 28 þúsund tunnum á móti 43 þúsund í fyrra. Gangi slíkt eftir mun heildarveiðin verða um 5 þúsund tunnur undir árlegri þörf markaðarins. Markmið seljenda með þessari aðgerð er að endurheimta jafnvægi á framboði og eftirspurn og koma þannig í veg fyrir óæskilegar verðsveiflur sem gætu haft áhrif á þann stöðugleika sem ríkt hefur sl. ár á grásleppukavíarmarkaðinum.
70% af meðalvertíð
Kaupendur grásleppuhrogna sem flestir eru framleiðendur kavíars voru ekki par hrifnir af þeim aðgerðum sem í uppsiglingu voru, þ.e. að sjómenn mundu óska eftir að sett yrðu í reglugerð ákvæði sem mundu draga úr veiði. Þeir efuðust um að ákvörðun þeirra mundi ganga eftir og skila árangri, en annað hefur nú komið á daginn. Veiðitími var styttur um þriðjung á Íslandi og Nýfundnalandi, veiðikvóti í Noregi minnkaður um 10% og Grænlendingar taka m.a. upp leyfisskyldu og fækka netum.
Á þessari stundu þegar vertíðin hér á landi er víðast hvar langt komin, er ljóst að hér verður veiðin rétt rúmur helmingur af því sem hún skilaði í fyrra og um 70% af meðalvertíð, sem er um 10 þúsund tunnur. Veiðar í Grænlandi og Noregi er á áætlun og ólíklegt að þær verði meiri en áformað er. Á Nýfundnalandi eru veiðar að hefjast og því of snemmt að spá fyrir um hvort afrakstur vertíðarinnar þar verði meiri en stefnt er að, 0-0-8 tunnur.
Samstaða skilar árangri
Eins og fram hefur komið var markmiðið með því að veiða þriðjungi minna en í fyrra að draga úr líkum á verðfalli sem blasti við hefði ekkert verið að gert. Það hefur tekist það sem af er vertíðar þótt því sé ekki að neita að verð hefur lækkað meir en þær breytingar sem orðið hafa á Evrunni. Samstaða veiðimanna er því á góðri leið með að skila árangri. Hún hefur komið í veg fyrir stjórnlausar veiðar sem leitt hefðu til verðfalls og óvissu á komandi vertíðum. Auk þess sendir hún veiðimönnum skilaboð um að samstaðan nú komi til með að skila þeim ásættanlegri stöðu í upphafi næstu vertíðar. Mikið er í húfi þar sem yfir 300 bátar taka þátt í veiðunum sem í góðu ári á að skila um 1 milljarði í aflaverðmæti.
Það er von mín að kaupendur og framleiðendur grásleppukavíars ráði við þá stöðu sem nú er og noti svigrúmið sem gefst þegar hráefnið er ódýrt til að vinna nýja markaði fremur en að hjakka í sama farinu með því að ná áður unnu hilluplássi með undirboði. Slíkt er hvorki hagur grásleppuveiðimanna, framleiðenda grásleppukavíars né neytenda.“
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.