Eins og greint var frá fyrr í mánuðinum var haldin ráðstefna um málefni smábáta og strandveiða í Grenaa í Danmörku í byrjun maí. Einnig var þess getið að fulltrúar smábátaeigenda frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð treystu sér ekki til að skrifa undir þá sameiginlegu yfirlýsingu sem fulltrúar strandveiðimanna sendu frá sér á ráðstefnunni.
Gerð var tilraun til að koma þessu í kring eftir ráðstefnuna, en nú er fullreynt. Því stendur yfirlýsingin óbreytt eins og hún var undirrituð í Grenaa.
Grenaa yfirlýsingin
Undirritaðir fulltrúar samtaka strandveiðimanna sem samankomnir eru í Grenaa í Danmörku dagana 2. og 3. maí 2005 senda hér með frá sér eftirfarandi yfirýsingu:
Við skorum á ríkisstjórnir og stjórnmálamenn á Norðurlöndum að veita strandveiðum og strandveiðisamfélögum sérstaka athygli og viðurkenningu. Sérþekkingu fiskimanna á veiðum, fiskistofnum og búsvæðum hafsins þarf að veita meiri athygli. Sagan sýnir að nýting nálægra fiskimiða með smærri fiskiskipum er besta tryggingin fyrir sjálfbæru ástandi þessara auðlinda.
Við skorum á stjórnvöld á Norðurlöndunum að hlusta á kröfur íbúa strandveiðisamfélaganna þegar fiskveiðiréttindi og reglur eru mótaðar, sérstaklega þær að fiskveiðistjórn sé ekki aðeins sjálfbær efnahagslega, heldur og einnig umhverfislega og félagslega.
Það er algert forgangsmál að slíkar lagasmíðar tryggi að fiskveiðiréttindin haldist hjá strandveiðiflotunum og -samfélögunum.
Ríkisstjórnir og stjórnmálamenn verða að standast þrýstinginn frá stórfyrirtækjum um að breyta réttindum strandveiðanna í almenna verslunarvöru. Veiðileyfi og veiðréttur eru hluti af arfleifð, en ekki farandverslunarvara handa hæstbjóðanda.
Fiskistofnar eru endurnýjanlegar auðlindir sem verður að viðhalda á sjálfbæran hátt. Við þurfum stuðning ríkisstjórna Norðurlanda til að tryggja að þessi auðlindanýting sé framkvæmd með sjálfbærum hætti svo strandveiðisamfélögin eigi sér lífvænlega framtíð.
Við viljum sjá beinna samhengi milli pólitískra loforða og efnda, þegar kemur að því að vernda framtíð strandveiðisamfélaga- og veiða. Málflutningur stórfyrirtækja, umhverfissamtaka og í nokkrum tilfellum vegna veiða ferðamanna virðist oft áhrifameiri en frá íbúum viðkomandi svæða.
Á nokkrum stöðum er mengun orðin veruleg ógn, ógn sem verður að takast á við án tafar.
Því ber nauðsyn til að viðurkenna, vegna efnahags og sjálfbærni strandveiðanna, sanngjarnan hluta fiskveiðiréttindanna innan hverrar lögsögu Norðurlandana þeim til handa.
Við köllum eftir því að meiri rannsóknir verði gerðar á stöðu strandveiðimanna á Norðurlöndunum. Slíkt verkefni ætti fyrst og fremst að einbeita sér að félagslegum og efnahagslegum þáttum og mikilvægi þessara veiða fyrir strandveiðisamfélögin. Þá ætti einnig að rannsaka áhrif hinna ýmsu aðferða til fiskveiðistjórnunar á lífsviðurværi íbúanna og samfélaganna í heild.
Við leggjum til að Norræna ráðherraráðið setji á fót þriggja til fimm ára verkefni þar sem stöðugt er fylgst með þessum atriðum. Veiðimenn og íbúar strandveiðisamfélaganna jafnt sem aðilar frá stjórnvöldum og sérfræðingar ættu að vinna verkefnið. Í þessu sambandi er viðeigandi að Samtök strandveiðimanna í Norður-Atlantshafi (ACFNA) í samvinnu við fulltrúa frá öðrum Norðurlöndum sé vettvangur veiðimanna varðandi verkefnið.
Á þeim tíma sem verkefnið stæði yfir ætti að funda reglulega um framgang þess.
Okkar framtíðarsýn er að tilfærsla veiðiheimilda frá strandveiðiflotunum til annarra veiðiskipa verði stöðvuð og snúið við. Slíkt myndi skapa tækifæri fyrir strandveiðisamfélögin til að bregðast við vaxandi áhuga og vitund neytenda sem krefjast sjávarfangs sem aflað er með sjálfbærum veiðiaðferðum.
Strandveiðarnar standast allar kröfur markaðarins í þessu tilliti. Aflanum er landað daglega af bátum sem eyða lágmarks orku og nota umhverfisvæn veiðarfæri. Útkoman er hágæða hráefni og verðmiklar afuðir sem enginn getur keppt við.
Sjálfbærar strandveiðar eru veiðar framtíðarinnar.
Grenaa 3. maí 2005
Peter Olsen
KNAPK Grænland
Pétur Sigurðsson
Landsamband Smábátaeigenda. Ísland
Paul Oddgeir Jensen
Norges Kystfiskarlag Noregur
Ragnar Hentze
Meginfelag Útróðrarmanna. Færeyjar
Fredrik Lundberg
Ålands Fiskare rf Álandseyjar
Auðunn Konráðsson
ACFNA
Arthur Bogason
WFF