Rekstur skólaskips verði tryggður

Á sama degi og ákveðið var að fresta fundum Alþingis til septemberloka, var samþykkt að vísa til ríkisstjórnarinnar nefndaráliti sjávarútvegsnefndar við þingsályktun um rekstur skólaskips.
Þingsályktunin var lögð fram 4. október sl. af Guðjóni A. Kristjánssyni, Jóhanni Ársælssyni, Guðmundi Hallvarðssyni, Þuríði Backman, Kristni H. Gunnarssyni, Björgvini G. Sigurðssyni, Jóni Bjarnasyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Þingsályktunin var eftirfarandi: „Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að stuðla að því að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir fyrir grunnskólanema um fiskveiðar, vinnulag til sjós, fiskifræði og líffræði sjávarins, með sama eða svipuðu sniði og gert var um borð í rannsóknarskipinu Dröfn RE í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina.“
Í greinargerð sagði m.a. „Nú er fyrirsjáanlegt að þetta verkefni leggist af vegna fjárskorts og flutningsmenn telja afar mikilvægt að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir með svipuðu sniði í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina til að nemendur eigi kost á að kynnast verklagi við fiskveiðar og lífríki sjávar.“
Nánar: http://www.althingi.is/altext/131/s/0029.html

LS veitti umsögn um málið 24. nóvember sem var eftirfarandi:
„LS tekur heilshugar undir efni þingsályktunarinnar og mælir með að hún verði samþykkt. Rekstur skólaskips í því formi sem verið hefur er nauðsynleg tenging sjávarútvegsins við grunnskólann og með miklum ólíkindum að ef ekkert verður að gert muni verkefnið heyra sögunni til.
Þeir þættir sem grunnskólanemendum í 9. og 10. bekk hefur verið boðið upp á um borð í rannsóknarskipinu Dröfn RE hafa notið mikilla vinsælda. Nemendur fá þar nauðsynlega innsýn í sjávarútveginn, fiskveiðar og lífið í sjónum. Þannig fræðast þeir um það sem gerist á sjónum sem vekur hjá þeim margar spurningar. Úrvinnsla ferðarinnar fer svo fram í skólanum þar sem verkefnum er skilað. Við vinnslu þess jafnvel leitað í sjóði foreldra til að fá svör við því sem gerist áleitið. Þannig vakna umræður á heimilinu um sjávarútveginn sem nauðsynlegt er hjá þjóð sem á allt sitt undir öflugum sjávarútvegi.“

Eins og áður er fram komið var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar og var nefndarálit sjávarútvegsnefndar eftirfarandi:
„Með tillögunni er lagt til að sjávarútvegsráðherra verði falið að stuðla að því að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir fyrir grunnskólanema um fiskveiðar, vinnulag til sjós, fiskifræði og líffræði sjávarins, með sama eða svipuðu sniði og gert var um borð í rannsóknaskipinu Dröfn RE í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina.
Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur nú fengið frá sjávarútvegsráðuneytinu gerði ráðuneytið hinn 25. febrúar sl. samning við einkaaðila um að taka að sér siglingar með nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskólanna og verður rannsóknaskipið Dröfn RE notað í verkefnið. Fyrirkomulag verkefnisins verður með svipuðu sniði og áður og mun Hafrannsóknastofnunin annast fræðslu um borð um lífríki sjávar og Fiskifélag Íslands sjá um skipulagningu, skráningu og kynningu á verkefninu. Verkefnið hófst í apríl sl. og hafa þegar verið farnar nokkrar ferðir og verður haldið áfram í haust. Umræddur samningur tekur til allt að 30 siglingadaga á þessu ári og er ætlunin að endurskoða hann að haustsiglingum loknum.
Um leið og nefndin fagnar því að rekstur skólaskips sé hafinn á ný leggur hún áherslu á að áfram verði haldið á sömu braut og verkefninu tryggt nægilegt fjármagn til að svo megi verða. Með hliðsjón af því og í samræmi við framangreint telur nefndin rétt að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“ Nánar http://www.althingi.is/altext/131/s/1403.html