Nýjar reglur í gildi á Grænlandi

Á morgun, 1. júní, ganga í gildi reglur á Grænlandi sem geta haft umtalsverð áhrif á sóknarþungan í grásleppuna. Þessar nýju reglur útiloka þá frá veiðunum sem ekki eru eingöngu atvinnufiskimenn og með slíkt leyfi. Áhrifin verða væntanlega ekki mjög mikil á þessari vertíð, en enginn vafi er á því að strax á næsta ári mun þetta hafa veruleg áhrif.
Breytingarnar eru framlag Grænlendinga til að stemma stigu við framboði á grásleppuhrognum, en allar helstu veiðiþjóðirnar hafa gripið til aðgerða sem gera það að verkum að umtalsverður samdráttur verður á framboði hrogna á árinu 2005, miðað við hvað ella hefði orðið.

Góð veiði á Norðursvæði

Veiðin á Grænlandi gekk fremur rólega á suðursvæðinu (eingöngu er veitt á vesturströndinni) en í byrjun maí hófust veiðar fyrir alvöru á norðursvæðinu. Þar hefur verið góð veiði og jafnvel betri en í fyrra. Því er hætt við, vegna þess hve seint reglurnar sem að framan er getið voru settar í framkvæmd, að Grænlendingar fari framúr þeim markmiðum sem sett voru fyrir vertíðina.

Engin stórveiði á Nýfundnalandi

Á Nýfundnalandi er þegar búið að loka nokkrum svæðum, en veiðitíminn þar var styttur í tvær vikur fyrir hvert þeirra. Veiðin hefur verið róleg, ef eitthvað er, og í ljósi þess gegnir furðu að kaupendur hrogna halda enn að sér höndum með innkaup frá Nýfundnalandi. Mörgum þykir það benda til að birgðir hafi því verið mun meiri í upphafi vertíðar en áður hefur komið fram. Það er því ljóst að veiðimenn eiga áframhaldandi verkefni fyrir höndum að gæta þess að offramboð eigi sér ekki stað á grásleppuhrognum.