Hafrannsóknastofnun hefur birt niðurstöður úr árlegum vorleiðangri sem lauk 1. júní sl. Leiðangurinn var farinn á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni og var hluti af langtímavöktun á ástandi sjávar, næringarefnum, gróðri og átu á hafsvæðinu við Ísland. Athuganir voru gerðar á alls 114 stöðum í hafinu umhverfis landið, bæði á landgrunninu sjálfu og utan þess.
Helstu niðurstöður vorleiðangurs voru eftirfarandi:
„1. Ástand sjávar
Sjávarhiti í hlýsjónum suður og vestur af landinu var 5°-9°C og seltan 35-10-35,27, sem eru há gildi líkt og undanfarin ár. Innflæði inn á Norðurmið var allnokkuð vestantil og náði selturíkur hlýsjór austur fyrir Melrakkasléttu en ofan á honum lá ferskt og í meðallagi heitt yfirborðslag úti fyrir Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, sem eru leifar hafíssins sem rak austur með Norðurlandi fyrr í vor. Hiti og selta í efri lögum sjávar voru þó um eða yfir meðallagi fyrir norðan land en nokkuð lægri en verið hefur síðustu ár. Í Austur-Íslandsstraumi utan landgrunnsins norðaustur af landinu voru hiti og selta nálægt langtímameðaltali og náði kalda tungan heldur sunnar en síðustu ár. Á landgrunninu úti fyrir Austfjörðum voru sjávarhiti og selta í efri lögum sjávar um og undir meðallagi (2°-3°C, 34,5 – 34.9), sem er heldur kaldara og ferskara en síðustu ár. Skil heita og kalda sjávarins suðaustanlands voru óvenju vestarlega og var hiti á landgrunninu út af Stokksnesi um 5°C lægri en á sama tíma í fyrra og seltan einnig mun lægri en að jafnaði.
2. Næringarefni og plöntusvif
Magn plöntusvifs var kannað með mælingum á styrk blaðgrænu. Lítill gróður var vestur af landinu nema í Faxaflóa og í námunda við ísspöng norðvestur af Látrabjargi. Hár styrkur næringarefna sýndi að vorkoma gróðurs var ekki hafin í Atlantssjónum. Yfir landgrunninu út af Kögri og á Hornbanka var talsverður gróður, en að öðru leyti var lítill gróður og næringarefni upp urin í lagskiptum yfirborðssjó á Norðurmiðum og yfir landgrunninu austan landsins. Djúpt undan Austurlandi og sunnan landsins var gróðurmagnið víðast hvar minna en undanfarin ár, en forði næringarefna nægur fyrir síðbúna gróðuraukningu.
3. Áta
Þegar á heildina er litið var átumagn við landið í vorleiðangri meira en í meðallagi. Út af Vesturlandi var átumagn nálægt meðallagi, en talsvert yfir meðallagi norðan- og austanlands. Fyrir Suðurlandi og á Selvogsbanka var átumagn nálægt meðallagi. Séu niðurstöður um átu bornar saman við vorið 2004 kemur í ljós að átumagn var meira en þá á flestum rannsóknastöðvum.
4. Megin niðurstöður
Mælingar á ástandi sjávar að vori 2005 sýna háan hita og seltu sunnanlands og vestan, en hita um meðallag og seltu heldur undir meðallagi fyrir norðan og austan land. Lítill gróður var víðast hvar en átumagn við landið var yfir langtímameðaltali á flestum rannsóknastöðvum.
Leiðangursstjóri í vorleiðangri var Sólveig R. Ólafsdóttir, en alls tóku 12 rannsóknamenn þátt í leiðangrinum, þar af þrír frá erlendum samstarfsstofnunum. Skipstjóri var Guðbjartur Gunnarsson.
Hafrannsóknastofnuninni, 14. júní 2005“