Mikil og lífleg umræða er meðal trillukarla um lífríki sjávar. Nokkrir félagsmenn hafa haft samband eftir að hafa lesið fréttir af vorleiðangri Hafró og sagt það hafa komið á óvart hversu lítill gróður hefði verið í sjónum fyrir Norðurlandi. Viðmælendur bentu á að við grásleppuveiðar í vor hefði ríkt óvenjulegt ástand. Sjórinn kolsvartur og meira slý og gróður í netunum en menn eiga að venjast. Vegna þessara ábendinga var haft samband við Hafró og rengja þeir ekki frásagnir trillukarla. Þeir benda hins vegar á að misræmið eigi sér trúlega þær skýringar að leiðangurinn hafi ekki náð svo nálægt landi, þannig að hann hafi ekki tekið til hefðbundinna grásleppumiða.
En rannsóknir trillukarla ná víða en að rýna í sjóinn. Nýlega vakti athygli óvenjulegt vaxtarlag þorsks (með stóra kúlu á maganum) sem veiddur var á handfæri í Breiðafirði. Ákveðið var að rannsaka „vininn“ nánar og skoða inn í hann. Viti menn, þá kom í ljós í þessum 4 kg þorski (80 cm) eitt stykki meðbróðir (ca. 0,5kg), tæjur af öðrum og einn hlýri. Þarna er kannski skýringin komin á því að undirmál hefur verið hverfandi lítið við línu- og handfæraveiðar nú í vor og það sem af er sumri.