Skyndilokanir á kolmunnaveiðar – þorskur tæpum fjórum sinnum hærra hlutfall en í Næraberginu.

Mikil viðbrögð hafa orðið við fréttum af meintum meðafla kolmunnaskipa. Félagsmenn hafa haft samband við skrifstofuna og lýst ánægju sinni með að LS hafi vakið athygli á hversu gríðarleg verðmæti fara í súginn við veiðarnar. Fórnarkostnaður við þær allt of mikill. Þá hafa aðilar einnig vakið athygli á að það gerist við fleiri veiðar en kolmunna að menn ætla sér ekki að veiða þorsk. Þar eru nefndar grásleppuveiðar, þar er aftur á móti lögum um stjórn fiskveiða framfylgt og menn þurfa að láta kvóta á móti þeim þorski sem þannig er „óvart“ veiddur.

Í hádegisfréttum RÚV í dag gagnrýndi Marteinn Einarsson skipstjóri á Ingunni AK harðlega hvernig menn hafa ályktað af mælingu Fiskrannsóknastofu Færeyja um borð í kolmunnaveiðiskipinu Nærabergi að ætla að þetta hlutfall væri meðaltalið við veiðarnar. Mælingarnar í Nærabergi sýndu að meðafli af ufsa væri 3,6% og af þorski 0,7%.

Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun virðast mælingar í Nærabergi aðeins barnaleikur við þær mælingar sem lágu til grundvallar skyndilokun 20, 21 og 22 á Þórsbanka. Þar fór þorskurinn upp í 2,3% af heildarafla, þ.e. tæpum fjórum sinnum meira en í mælingu Færeyinganna. Framreikningar eins og framkvæmdir voru hér á síðunni eru því síst fjarri lagi eins og skipstjórinn heldur fram.

LS ætlar ekki að leggjast í deilur um það hversu mikill meðafli er hjá kolmunnaskipunum, en ítrekar kröfur sínar um að lögum um stjórn fiskveiða verði framfylgt við kolmunnaveiðar jafnt sem bolfiskveiðar báta.