Vilja kaupa fisk frá smábátum

Á fundi stjórnar LS sem haldinn var í júlí síðast liðnum var rætt um samstarf við Bændasamtök Íslands er lítur að þátttöku þeirra í átaksverkefninu Áform. Ljóst er að verkefnið er að skila verulegum árangri í markaðsstarfi á íslensku lambakjöti og fleiri landbúnaðarafurðum í Bandaríkjunum. Nú er svo komið að auk þess að hágæða verslunarkeðjan Whole Foods Market býður viðskiptavinum sínum upp á íslenskt lambakjöti, er einnig hafin sala á mjólkurafurðum og ýmsum fleiri landbúnaðarafurðum.
Að sögn Baldvins Jónssonar verkefnisstjóra Áforms hafa forsvarsmenn verslunarkeðjunnar nú leitað eftir möguleikum á að fjölga vörutegundum frá Íslandi. Einkum horfa þeir til fisks sem veiddur er af smábátum. Þeir segja að hann geti uppfyllt kröfur fyrirtækisins um sjálfbæra þróun, rekjanleik-, vistvænleika, hreinleika og gæði.
LS hefur nú þegar hafið undirbúning að þátttöku í átaksverkefninu Áform með það að markmiði að hækka verð á fiski sem veiddur er af trillukörlum.

Nánari upplýsingar um Áform átaksverkefni, slóð: http://www.bondi.is/landbunadur/wgbi.nsf/key2/aform_forsida