Aðalfundur Árborgar – Stjórnvöld geri ráðstafanir til að hamla gegn háu gengi krónunnar

Árborg, félag smábátaeigenda á Suðurlandi, hélt aðalfund sinn í Þorlákshöfn sl. mánudag. Fundurinn samþykkti eftirfarandi tillögur til aðalfundar LS sem haldinn verður 14.og 15. október.

Útúrsnúningur við línuívilnun verði leiðréttur

„Árborg hvetur aðalfund LS til að beita sér af alefli fyrir því að leiðrétt verði sá útúrsnúningur fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að línuívilnun eigi eingöngu við um landbeitta línu. Aðalfundur Árborgar krefst þess að allir dagróðrabátar sem róa með línu njóti línuívilnunar án tillits til þess hvernig línan er beitt, enda er það vægast sagt óeðlilegt að stjórnvöld séu að stjórna því með svo beinum hætti hvernig menn beita sína línu.“

Bann við notkun stórra möskva þarf að vera stutt vönduðum rannsóknum

„Árborg beinir þeim tilmælum til aðalfundar LS að þess verði krafist af sjávarútvegsráðherra að þess verði gætt að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er í takmörkun á notkun stórra möskva við netaveiðar.
Bann við notkun veiðarfæra svo sem stórra möskva í þorskanetum þarf að vera stutt vönduðum rannsóknum sem gefa skýrar niðurstöður.“

Páskastopp

„Árborg beinir þeirri tillögu til aðalfundar LS að reynt verði að sjá til þess að páskar falli inn í páskastoppið.“

Kvóti í keilu og löngu verði aukinn

„Aðalfundur Árborgar beinir þeirri tillögu til aðalfundar LS að rannsóknir verði efldar á keilu og löngustofnunum og kvóti í þessum tegundum verði aukinn vegna stóraukinnar útbreiðslu þessara tegunda.“

Stjórnvöld geri ráðstafanir til að hamla gegn háu gengi krónunnar

„Aðalfundur Árborgar beinir þeirri tillögu til aðalfundar LS að þess verði krafist að stjórnvöld geri allar mögulegar ráðstafanir til að hamla gegn hinu gífurlega háa gengi krónunnar sem nú er að sliga sjávarútveginn í landinu.“

Stjórn Árborgar var öll endurkjörin en hana skipa:
Þorvaldur Garðarsson formaður
Haukur Jónsson varaformaður
Stefán Hauksson gjaldkeri
Ragnar Jónsson ritari
Ólafur Sigurmundsson meðstjórnandi.