Sjávarútvegsráðherra banni botnvörpuveiðar á hrygningarsvæðum steinbíts

Á aðalfundi Eldingar, sem greint var frá hér í gær, voru eftirtaldar ályktanir samþykktar til 21. aðalfundar LS.

Ívilnun

Lagt er til að línuívilnun verði aukin í 25% og skerði ekki aflaheimildir annarra skipa. Línuívilnun nái til allra línubáta sem róa í dagróðrum, hvort sem um er að ræða handbeitningu, trektarbeitningu eða vélarbeitningu. Þá leggur Elding til að tegundir í línuívilnun, sem falla niður við fiskveiðiáramót lúti sömu lögmálum og almennt gerist, þ.e.a.s. 20% færist á milli ára, auk þess sem símakrókur verði aflagður við eftirlit og sjálfvirka tilkynningakerfið komi í hans stað.
Elding leggur til að ívilnun gildi einnig fyrir handfæraveiðar.

Grásleppuveiðar

Að veiðitími til grásleppuveiða verði styttur og veiðimenn fái að velja sinn veiðitíma sjálfir á tímabilinu 1. mars – 1. ágúst.

Skipaskoðun

Að skipaskoðanir verði samræmdar þannig að allar gerðir skoðana verði á sama tíma og Siglingastofnun láti vita með hálfs mánaðar fyrirvara um næstu skoðun.

Hafnargjöld

Mótmælt er stórauknum hafnargjöldum.

Rannsóknir

Elding hvetur til að rannsóknir á lífríki sjávar verði stórauknar.
Elding skorar á stjórnvöld að endurskoða starfsemi Hafró og fá fleiri aðila til sjálfstæðra hafrannsókna.

Byggðakvóti

Elding leggur til að veiðiskylda verði sett á byggðakvóta og þeir sem fái byggðakvóta verði einnig að veiða sinn kvóta í þorskígildum talið.

Botnvörpuveiðar

Elding skorar á sjávarútvegsráðherra að banna allar botnvörpuveiðar á hrygningarsvæðum steinbíts á tímabilinu frá 1. október – 1. febrúar og alfarið innan 12 mílna á áðurnefndum svæðum.

Aukategundir

Elding leggur til að skötuselur, sem hin síðari ár er að gera vart við sig hér fyrir Vestfjörðum, verði undanþeginn kvóta sem meðafli.
Elding leggur til að smábátum verði ekki haldið frá veiðum á fisktegundum sem ekki hafa verið kvótasettar með tæknihindrunum, svo sem makríl, ósaflúru, hrossarækju og fleiri tegundum sem eru að sýna sig í æ ríkari mæli. Veiðar á þessum tegundum gæti orðið verkefni fyrir smábáta.