Í fréttatilkynningu sem sjávarútvegsráðuneytið sendi frá sér í dag af tilefni ræðu sjávarútvegsráðherra kemur eftirfarandi fram: „Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gerði þróun smábátaútgerðar, eftir að kvótakerfi var komið á í íslenskum sjávarútvegi, að umræðuefni í ræðu sinni á fundi Landssambands smábátaeigenda í dag.
Ráðherra rakti þróunina frá sóknardagakerfi og þorskaflahámarki smábáta yfir í heildstætt krókaflamarkskerfi fyrir alla smábáta. Hann sagði smábátaútgerðina núna gífurlega öflugt rekstrarform sem hafi markað sér mikinn sess. Hún skipti þjóðarbúið miklu máli og einstök byggðarlög nær öllu. Smábátaútgerð hefði ekki í annan tíma á seinni árum verið öflugri hér á landi. Þá birti hann nýjar tölur sem sýna skýrt að veiðiréttur er ekki hamlandi fyrir starfrækslu smábáta í heild.
Ráðherra ræddi einnig afstöðu sína til sóknartengdrar og minnti á að slík stýring fæli ekki í sér frelsi til veiða að allra vild. Hún fæli í sér takmarkanir sem ekki séu bundnar við tonn, kíló og grömm heldur aðferð við það að takmarka sókn og ein forsenda hennar væri framsal. Það framsal væri ekki á veiðirétti mælt í þyngd fisks, heldur á réttinum til sóknar. Í báðum tilvikum væri um einstaklingsbundinn rétt að ræða, veiðirétt sem útgerðarmaðurinn hefði og gæti ráðstafað.
Staðan núna væri sú að niðurstaða væri fengin um að nota aflamark í stjórnkerfi veiða og skiptingu þeirra á útgerðarflokka. Sú niðurstaða væri til frambúðar. Ráðherra dró upp þessa mynd:
„Við höfum í fyrsta lagi hið almenna aflamarkskerfi og innan þess starfa fjölmörg skip bæði minni og hin stærri. Litlar útgerðir og stórar. Við höfum í annan stað krókaflamarkið þar sem smábátaútgerðin vinnur og loks höfum við þessi byggðatengdu úrræði, sem ég hef gert að umtalsefni. Þetta eru þær aðstæður, sem sjávarútveginum eru búnar í dag. Ég er þeirrar skoðunar að þau útgerðarform sem við búum við um þessar mundir eigi öll að geta fundið sér farveg innan þessa fyrirkomulags. Þau tryggja möguleika á hagræðingu og hagkvæmni. Þau eru byggðatengd í nokkrum mæli. Þau skapa svigrúm til minni útgerða við hlið hinna stærri. Og þau gefa færi til handa stærri útgerða að efla sig til átaka á vettvangi sem krefst fjárhagslegs styrks og stærðar. Alla þessa flóru eigum við að viðurkenna og virða. Íslenskur sjávarútvegur hefur nefnilega verið sterkur í gegn um tíðina vegna fjölbreytninnar og þeirrar ótrúlegu hugkvæmni sem alltaf hefur ríkt á þeim bæ, við að bregðast við erfiðleikum og breytilegum forsendum.“
Áhugavert
Dagatal LS 2019
Bæklingur LS
NASBO Brochure
Veður
Gæðamál
Hvað þarf mikinn ís til að kæla aflann?
Upprunamerki: Iceland Responsible Fisheries
Virkt skipakort
Landssamband smábátaeigenda
Hverfisgötu 105
101 Reykjavík
Sími: 552 7922
ls@smabatar.is