Fyrir stundu var samþykkt aðalályktun 21. aðalfundar LS:
’21. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda lýsir miklum áhyggjum af gríðarlegum veiðum við landið á uppsjávartegundum, sérstaklega loðnu, sem er uppistaða í fæðu þorskstofnsins. Ýmis teikn eru á lofti um breytingar í náttúrufari sem m.a. hafa leitt til hruns í sílastofnum við landið með tilheyrandi afleiðingum fyrir afkomu fiska og fugla. Mikil línuveiði undanfarinna missera bendir og til þess að ætisskortur og breytingar á fæðuvali séu viðvarandi.
Sagt er að náttúran eigi að njóta vafans. Því er eðlilegt við ríkjandi kringumstæður að dregið sé verulega úr loðnuveiðum með þeim hætti að stöðva sumarveiðar og banna notkun flotvörpu þar til sýnt hefur verið fram á að þær hafi ekki áhrif á göngumynstur uppsjávartegunda.
Eitt þeirra verkfæra sem stjórnvöld geta beitt til að hvetja til aukinna verðmæta sjávarfangs er ívilnandi ákvæði fyrir umhverfisvæn veiðarfæri og veiðar sem margfalda verðmæti úr einstaka fiskistofnum.
Í þessu sambandi hvetur fundurinn til þess að veiðar á uppsjávartegundum til manneldis fái sambærilega ívilnun og línuveiðar, á kostnað veiða til mjölframleiðslu.
Sú staðreynd að stórir kaupendur fiskafurða hafa nú þegar dregið þá markalínu að kaupa einungis þorsk, ýsu og steinbít sem veiðist á línu ætti og að vera stjórnvöldum hvatning til þess að efla línuívilnun og hvetja þannig til enn frekari notkunar þessa veiðarfæris.
Höfuðverkefni íslensks sjávarútvegs er að hámarka verðmæti sjávaraflans. Smábátaútgerðin mun ekki láta sitt eftir liggja. Í henni felast tækifæri sem nýta ber til fullnustu á þeim mörkuðum sem best borga. Sú stigvaxandi krafa kaupenda og neytenda að fiskveiðar séu stundaðar með sjálfbærum og ábyrgum hætti bæði gagnvart umhverfi hafs og mannlífi sjávarbyggða fellur fullkomlega að þeim rökum sem LS hefur ætíð lagt til grundvallar sínum málflutningi.
Tvennt gerir brýnna en nokkru sinni að hámarka verðmæti sjávarfangs. Ógnarhátt gengi krónunnar liggur eins og mara á sjávarútveginum og botnlaus vilji sýnist fyrir því að skapa honum nýja gjaldaliði. Fundurinn skorar á stjórnvöld að grípa nú þegar til aðgerða í þessum efnum. Vera má að vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskap sé ekki sem áður fyrr. Hann gegnir engu að síður lykilhlutverki í afkomu þjóðarinnar sem og að vera lífæð fjölmargra sjávarbyggða.
Öflug smábátaútgerð er forsenda öflugs sjávarútvegs. Nýting náttúruauðlinda mun í framtíð leyfast þeim sem best ganga um og best gera úr. Öflug smábátaútgerð er því ávísun á bjarta framtíð’.