Dragnótaveiðar – aðalfundur LS þakkar bæjarstjórnum stuðninginn

Á nýafstöðnum aðalfundi LS var að vanda rætt um dragnótamál. Samþykkt var að skora á sjávarútvegsráðherra að endurskoða reglur „um dragnótaveiðar m.t.t. breytinga sem orðið hafa á veiðarfærinu, stærð skipa sem stunda veiðarnar, veiðisvæða – fjarlægðar frá landi og samsetningu afla þegar tekið er mið af því að dragnótaveiðar voru leyfðar á nýjan leik til að nýta flatfiskinn“.
Því var fagnað á fundinum að sjávarútvegsráðuneytið hefði nýverið bannað notkun steinastiklara (rock hoppera) við dragnótaveiðar í Faxaflóa. Ástæða væri til að bæta um betur og láta það bann ná til alls landsins.
Þá samþykkti fundurinn tillögu Skalla um áskorun til sjávarútvegsráðherra að verða við ítrekuðum samþykktun um lokun Skagafjarðar fyrir dragnótaveiðum innan línu sem dregin er úr Ketubjörgum í Almenningsnöf. Í umræðum um tillöguna komu fram vonbrigði með þá ákvörðun ráðuneytisins að taka ekki tillit til viðhorfa sveitarstjórna og íbúa við Skagafjörð við áðurnefndri ályktun.
Svæðisfélagið Klettur fékk einnig stuðning aðalfundar um dragnótaveiðar í Eyjafirði. Samþykkt var að skora „á sjávarútvegsráðherra að verða við ítrekuðum ályktunum Kletts um að færa línu um bann við dragnótaveiðum á Eyjafirði utar á fjörðinn, þannig að dragnótaveiðar verði bannaðar innan línu sem dregin er úr Landsenda (við sunnanverðan Héðinsfjörð) í Hrólfssker og réttvísandi austur þaðan“.
Aðalfundur LS lauk umfjöllun um dragnót með að samþykkja þakkir til bæjarstjórna fyrir að styðja smábátaeigendur í baráttu þeirra gegn rányrkju dragnótaveiða stórra skipa inni á fjörðum allt í kringum landið.
Myndin er tekin á aðalfundinum, þar má meðal annarra sjá 5 harða andstæðinga dragnótaveiða, fremstur er Gunnar Hjaltason Reyðarfirði, fyrir aftan hann sitja t.v. Aðalbjörn Sigurlaugsson Ólafsfirði og Sigurður Gunnarsson Húsavík, fyrir aftan hann Skarphéðinn Árnason Akranesi og þar fyrir aftan má sjá Árna Jón Sigurðsson SeyðisfirðiDragnot_2492-100-5_1.jpg