Botnvörpuveiðar – Neyðarkall frá Reykjanesi

Á aðalfundi LS var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum tillaga Reykjaness þar sem „skorað er á sjávarútvegsráðherra að loka svæði vestur úr Sandgerði og sunnan við Reykjanes. Lokunin verði færð til fyrra horfs sem er réttvísandi vestur úr Stafnesvita og lokunin verði varanleg. Svæðið er tiltekið í reglugerð nr. 863, 28. október 2004.“

Ítarleg greinargerð með samþykktinni er eftirfarandi:
„Félagar í Reykjanesi hyggjast hleypa af stokkunum átaki enn einu sinni til þess að reyna að bjarga smábátaútgerð og atvinnumöguleikum strandveiðisjómanna á Suðurnesjum.Adalf_Pall_Johann_1-2504-100.jpgÁskorunina kjósa þeir að kalla „Neyðarkall“, og það ekki að ástæðulausu. Í áskorun þessari sem beint er fyrst og fremst til hæstvirts sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, er farið þess á leit við hann og ráðuneyti hans að lokað verði varanlega fyrir allar veiðar með botn- og flotvörpu á svæði út af Faxaflóa, sem markast að sunnan af línu sem dregin er réttvísandi 270° frá Stafnesvita og að vestan markist línan af 23°42´V og að norðan af 64°20´N.
Það svæði sem hér um ræðir hefur um áratuga skeið verið hefðbundið línu- og netasvæði strandveiðiflotans hér á Suðurnesjum, en það má segja að botnvörpuskipin hafi klofið það í tvennt með veiðum sínum eins og lokunum hefur verið háttað hingað til.
Það liggur alveg í augum uppi að þessi veiðarfæri eiga enga samleið eins ólík og þau eru í eðli sínu og þrífast engan veginn saman á sömu slóð.
Strandveiðiflotinn sem saman stendur af litlum og meðalstórum bátum á ekki um neina aðra slóð að velja til þess að róa á haust- og vetrarvertíðum og einnig yfir sumarið, þegar róið er með handfæri.
Botnvörpuskipin eru hins vegar stór og öflug skip, sem geta í rauninni fiskað hvar sem er. Það hefur gjarnan verið þannig að botnvörpuskipin hafa yfirleitt alltaf komið inn á slóðina um leið og þeir hafa frétt af fiskiríi hjá strandveiðiflotanum, stoppað í eina eða tvær vikur þurrkað upp svæðið og farið síðan burt strax og það fer að tregast fiskiríið hjá þeim og það helst í hendur að strandveiðiflotinn fær ekki bein úr sjó í viku eða tíu daga á eftir.
Þetta mál snýst alls ekki um hagsmunatog á milli sjómanna, þetta mál snýst um það að Suðurnesjamenn eigi aðgang að fengsælum miðum í framtíðinni, sem vernduð hafa verið fyrir stórvirkum veiðarfærum öllum til heilla í nútíð og framtíð. Að Suðurnesjamenn eigi þá heimaslóð sem þetta svæði hefur verið fyrir strandveiðiflotann, til þess að stunda þar veiðar með vistvænum veiðarfærum. Þetta snýst síðast en ekki síst um að vernda viðkvæmar uppeldisstöðvar þorsks, ýsu, ufsa og síðast en ekki síst hrygningarstöðvar síldarinnar. Minnt skal á að umheimurinn gerir sífellt meiri kröfur um það að fiskveiðar verði stundaðar með vistvænum veiðarfærum, helst krókum, og megum við ekki eyðileggja þá möguleika okkar að geta svarað þeim kröfum vegna skammsýni okkar og tillitsleysis við náttúruna. Ekki er hægt að bera ábyrgð á því gagnvart komandi kynslóðum. Það má benda á það málinu til stuðnings að eftir að Húnaflóanum var lokað fyrir botnvörpuveiðum hefur veiði þar á botnfiski, þ.e.a.s. aðallega þorski og ýsu, aukist jafnt og þétt og er aflinn þar nú mjög góður svo ekki sé meira sagt. Kallast það mok á veiðislóð félagsmanna í Reykjanesi. Það sama má segja um svæðið út af Siglufirði og Eyjafirði, þar hefur fiskgengd og fiskirí aukist til mikilla muna síðan lokað var þar fyrir veiðar með botnvörpu innan við 12 sjómílur. Að sjálfsögðu kemur einnig til greina að lokað verði fyrir veiðar með botnvörpu og flotvörpu innan við 12 sjómílur fyrir suðvesturlandi eins og víðast annars staðar.
Ljóst er að ekki eru allir tilbúnir að deila þessari framtíðarsýn með félagsmönnum Reykjaness og að það verður við ramman reip að draga, en það er skylda LS að gera allt sem í þess valdi stendur til þess að verja þá auðlind sem veitt hefur þeim lífsviðurværi hingað til og mun vonandi gera til langrar framtíðar.“

Myndin er af Páli Jóhanni Pálssyni sem fylgdi tillögunni eftir með öflugum málflutningi