Málþing Hafró – dökkt útlit

Sl. mánudag hélt Hafrannsóknastofnun í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið málþing um nýliðun og framleiðslugetu þorskstofnsins. Málþingið var vel sótt og fyrirlestrar yfirgripsmiklir og fræðandi.
Björn Ævarr Steinarsson, forstöðumaður veiðiráðgjafarsviðs Hafrannsóknastofnunarinnar fjallaði um „Hrygningarstofn og nýliðun þorsks við Ísland“ Í fyrirlestrinum fjallaði hann um „skilgreiningu og mat á stærð hrygningarstofns og samband milli stærðar hrygningarstofns og fjölda afkomenda (nýliðun).“ Hann skýrði frá „mismunandi aðferðum til að meta framleiðslugetu ásamt annmörkum aðferðanna. Björn sýndi „fram á að tölfræðilega marktækt samband sé á milli fjölda nýliða og stærðar hrygningarstofns þó svo að stærð hans skýri þó aðeins hluta af breytileika í nýliðun til skemmri tíma litið.“ Björn Ævarr telur að „breytilegir umhverfisþættir, stærðarsamsetning stofnsins og fæðuframboð geti skipt verulegu máli og hugsanlega framlag einstakra hrygningarstofnseininga á hverjum tíma.“
Lokaorð Björns Ævarrs voru til stjórnvalda um að minnka bæri sóknina í þorskinn.

Næstur á dagskrá var Ransom A. Myers, University of Dalhousie, Kanada. Erindi hans bar yfirskriftina „Er samband milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar?“
Hvers vegna er mikilvægt í tengslum við langtímaafrakstur af fiskveiðum að viðhalda stórum hrygningarstofni? Leitast er við að skoða mikilvægi þess að viðhalda öflugum hrygningarstofni eigi fiskistofn að geta staðið undir fiskveiðum til langs tíma.
Í rannsóknum sínum leitaði Myers svara við eftirfarandi þremur spurningum:
(1) á mesta nýliðun sér stað þegar hrygningarstofninn er stór?
(2) á minnsta nýliðun sér stað þegar að hrygningarstofninn er lítill? og
(3) er meðalnýliðun meiri þegar stærð hrygningarstofns er fyrir ofan meðallag, eða fyrir neðan meðallag?
Niðurstaðan Mayers var sú að þegar stærðarsvið hrygningarstofnsins var nægjanlega vítt var svarið við öllum þremur spurningunum nær alltaf „já”. Þetta bendir til augljóss mikilvægis þess við stjórnun fiskveiða að viðhalda stórum hrygningarstofni. Þar sem að hámarks „hrygningargeta” er tiltölulega stöðug meðal fisktegunda og stærð hrygningarstofns er greinilega tengd nýliðun.
Í erindinu vék Myers einnig rannsóknum á gögnum um sögulegar, erfðafræðilegar og þróunarfræðilegar upplýsingar um nytjastofna. Þau gögn sýndu að ofveiði getur útrýmt staðbundnum stofnum, orsakað skaðlegar langtíma breytingar í afrakstri, og einnig minnkað staðbunda fjölbreytni. Það er algengt vandamál tengt fiskveiðum að hrygningarstofnar hafa minnkað svo að dregið hefur úr getu þeirra til nýliðunar. Því er greinilegt að fiskveiðistjórnun hefur fram til þessa ekki tekið tillit til hrygningarstofns og sjálfbærra veiða, sem aftur hefur haft í för með sér hrun stofna með tilheyrandi afleiðingum fyrir vistkerfið. Niðurstaðan er því sú að öll gögn benda til mikilvægis þess að viðhalda stórum hrygningarstofni þorsks við Ísland.

Michael Sinclair, Bedford Institute of Oceanography, Kanada flutti erindi sem hann nefndi: „Þorskstofninn við austurströnd Kanada – stærð hrygningarstofns, útbreiðsla og afföll“
Í erindi hans kom fram að framleiðsluaukning í hrygningarstofnsnýliðunarsambandi virðist ekki eiga sér stað fyrr en hrygningarstofn er orðinn mjög lítill. Þannig hjálpar náttúran ekki til fyrr en að stofnstærðin er orðin mjög lítil. En þrátt fyrir smæðina getur hrygningarstofninn endurnýjast.
Þá kom fram hjá Sinclair að stofninn við Nýfundnaland hefur engin batamerki sýnt þó veiðibann hafi verið í gildi.

Dr. Guðrún Marteinsdóttir flutti mjög athyglivert erindi, sem bar yfirskriftina: „Mikilvægi stofneininga og samsetning hrygningarstofns“. Á heimasíðu Hafró er birt eftirfarandi úr erindi hennar (þess má geta að flest sem hér hefur verið ritað er byggt á sömu heimild):
„Rannsóknir beggja megin Atlantshafsins hafa sýnt að stofngerð þorsks er flókin og á mörgum svæðum skiptast stofnarnir í marga undirstofna sem hver um sig hefur aðlagast fjölbreytilegum umhverfisþáttum. Niðurstöður úr rannsóknum hér á landi hafa sýnt að þorskur við Ísland hrygnir á mörgum stöðum við landið og að framlag mismunandi hrygningarsvæða er breytilegt í tíma og rúmi.
Nýlegar rannsóknir á erfðasamsetningu hrygningarþorsks hafa enn fremur sýnt að marktækur munur er á milli þorskhópa frá mismunandi hrygningarsvæðum. Athuganir á lögun, stærð og efnainnihaldi kvarna sem og ferðum þorska sem voru merktir á hrygningarslóð styðja þessar niðurstöður og benda til þess að þorskur við Ísland skiptist í nokkra undirstofna sem hafa takmarkaðan samgang sín á milli. Ljóst er að sá fiskur sem gengur til hrygningar við Suður- og Suðvesturströndina tilheyrir stærsta undirstofninum. Þannig er talið að framlag þessara eggja og lirfa þorsksins frá meginhrygningarsvæðunum inn á uppeldissvæðin út af Norðurlandi er þó ákaflega breytilegur og er hann m.a. háður styrk strandstraumsins sem og magni Atlantísks hlýsjávar, Irmingerstraumsins, sem streymir upp með Vesturlandi. Irmingerstraumurinn
klofnar í tvær greinar út af Vestfjörðum og flæðir hann annars vegar yfir til Grænlands og hinsvegar í kringum Horn inn á Norðurmið. Talið er ljóst að magn hlýsjávar sem streymir inn á Norðurmið hefur afgerandi áhrif á fjölda seiða sem ná að lifa af og alast upp við Ísland. Því eru meiri líkur á að fá sterka
árganga þegar stærð og samsetning þess undirstofns sem hrygnir við Suður- og Suðuvesturstöndina er í góðu lagi og þegar hlutfallslegur styrkur strandstraumsins, Irmingerstraumsins og innflæði Atlantssjávar á Norðurmið er mikið. Smærri hrygningareiningar sem finnast inn á fjörðum við Vestur-,
Norður- og Austurland eru þó einnig mikilvægar ekki síst þegar illa árar og flutningur ungviðis frá suðursvæðunum bregst.“

Lokaerindi málþingsins flutti Guðmundur Þórðarson á veiðiráðgjafarsviði Hafrannsóknastofnunarinnar – „Áhrif veiða á lífsögu þorsks“. Á heimasíðu Hafró segir eftirfarandi um erindi Guðmundar: „Mikið veiðiálag og stærðarháð val er einkenni nútíma fiskveiða. Á seinni árum hafa sjónir vísindasamfélagsins beinst í auknum mæli að hugsanlegum þróunaráhrifum slíkra veiða á lífsögu
tegunda. Líkleg áhrif slíkra fiskveiða væru breytingar í lífsögu viðkomandi stofns sem myndu leiða til minni afrakstursgetu.
Sótt hefur verið stíft í íslenska þorskstofninn undanfarin fimmtíu ár og því er áhugavert að athuga hvort veiðar úr stofninum hafi valdið þróunarfræðilegum breytingum. Á síðari árum hefur kynþroskahlufall hækkað nokkuð á norðursvæði en lítið breyst á sama tíma á suðursvæði, ekki er hægt að sjá miklar
breytingar í vexti á sama tíma. Stærðarháð val veiða úr íslenska þorskstofninum getur hugsanlega leitt til lækkunar í meðallengdum eftir aldri sem leiðir til minni frjósemi og minnkar líkurnar á góðri nýliðun. Breytingar á sókn og sóknarmynstri gætu minkað áhrif lífsögubreytinga og hugsanlega snúið þeim við.“

Hér með er Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneytinu þakkað fyrir að standa fyrir þessu málþingi.