Fugladauði

Ríkisútvarpið (Þorvaldur Friðriksson fréttamaður) greindi frá því í morgun að það væri skoðun vísindamanna að hækkun sjávarhita væri helsta orsökin fyrir miklum fugla- og fiskidauða meðfram Kyrrahafsströndum N-Ameríku sl. sumar. Skörfum og svartfugli hefði fækkað mikið og einnig ýmsum fiskitegundum eins og laxi. Svæðið nær frá Kaliforníu til Bresku-Colimbíu í Kanada, er þar hefur sjávarhiti verið 7° hærri að meðaltali í sumar, en verið hefur til þessa. Kaldir straumar með næringaríkum sjó kæmu ekki upp á yfirborðið eins og nauðsynlegt er talið og þá mældist svif í sjónum aðeins fjórðungur af því sem talið er eðlilegt. Staðfest hefur verið með rannsóknum að orsök fugladauðans er hungur og að ekkert þessu líkt hafi sést á þessum slóðum sl. 50 ár, eins og sagði í frétt Þorvaldar Friðrikssonar.

Í fréttinni er bent á að þetta minni um margt á ástandið í Norðursjó sl. 2 ár, en þar hefur sandsílið nánast horfið og svifið færst hundruð mílna norðar í kaldari sjó.

Fréttina væri einnig hægt að heimfæra hingað til lands þar sem ályktanir hafa komið frá svæðisfélögum LS og aðalfundi sem vekja athygli á ætisleysi í sjónum. Því sé enn meiri þörf en áður hefur verið að fara varlega í veiðar á loðnu þar sem þorskurinn virðist ekki hafa of mikið fyrir sig.

Af þessu tilefni er rétt að birta hér umræður á Alþingi vegna fyrirspurnar frá Merði Árnasyni Samfylkingunni til umhverfisráðherra.
Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir svaraði fsp. Marðar 16. febrúar sl. og í kjölfarið fylgdu umræður sem 5 alþingismenn tóku þátt í auk fyrirspyrjanda. Eftirfarandi kom fram:

„Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):
Forseti. Ég vil byrja á því að segja frá því að tafir sem orðið hafa á því að þessi fyrirspurn kæmist á dagskrá er fyrirspyrjandanum að kenna en ekki hæstv. umhverfisráðherra sem hefur staðið sig eins og sýslumenn eiga að standa sig og var tilbúin með svar við þessari fyrirspurn aðeins viku eftir að hún var lögð fram. Þetta segi ég af því að við erum stundum að væla, þingmenn, yfir því að ráðherrar standi sig ekki nógu vel í svörum.
Í öðru lagi vil ég segja að sennilega hefði átt að efna til stærri umræðu um þetta mál því að á því eru margar hliðar og ýmsir skafankar sem er bæði fróðlegt og reyndar líka skemmtilegt að fara í þó að tilefnið veki ekki mikla skemmtun.
Fyrirspurnin fjallar um svartfugl fyrir Norðurlandi en í raun og veru hafa síðan og áður verið fréttir miklu víðar að, frá Vestfjörðum, Reykjanesi og Vestmannaeyjum. Það eru líka fréttir frá öðrum stöðum á hafsvæði okkar af hordauðum svartfugli, hruni í svartfuglsstofninum að því er virðist frá Noregi. Það má minna á frétt frá Þorvaldi Friðrikssyni, fréttamanni í Ríkisútvarpinu, fyrir svo sem eins og tveimur vikum um Skotland og Hjaltland en þar hafa menn aldrei séð neitt þvílíkt, að sögn. Þar deyja kríur, teistur og skúmar en hjá okkur reyndar aðrar tegundir tvær samkvæmt frétt í Morgunblaðinu með upplýsingum frá Ólafi Nielsen og Sigurfinni Jónssyni á Sauðárkróki, langvía og stuttnefja.
Það á ekki að rasa að ályktun um þessi mál. Stofnar hafa áður tekið dýfur, það þekkjum við á Íslandi. Við höfum oft ekki kunnað að skýra það en fyrsta skýringin sem hér er nefnd í fréttunum frá Noregi, Hjaltlandi og Skotlandi, frá Bretlandseyjum, er sú að þetta sé hugsanleg afleiðing af hlýnun sjávar. Ef það er svo er það alvarlegt og það er reyndar ein fyrsta afleiðingin sem við sjáum sérstaka við Ísland af þeirri þróun. Ég ætla ekki að álykta sem svo en það er skýring að fæða fuglsins sé ekki nógu mikil vegna þess að kuldaskilin frægu sem eru uppspretta gróskunnar í lífríkinu í kringum Ísland séu að færast norðar og þess vegna nái fuglinn ekki að éta þessa fæðu við landið þar sem hann þarf að halda sig.
Ég hef líka frétt af því að m.a. trillukarlar á Ströndum telji að þetta sé hugsanlega einhver veiki í fuglinum af því að þeir sjá hordauðan fugl en líka fugl sem ágætlega er staddur. Ég hef ekki meiri spurnir af því. Jón Kristjánsson fiskifræðingur spyr í orðsendingu til mín hvort fiskurinn geti verið að aféta fuglinn, að við höfum hér ranga veiðistjórn og það sé of mikið af fiski á ákveðnum aldri sem síðan drepist innbyrðis og fuglinn sé þáttur í þeirri keðju.
Margar skýringar koma til greina og ég hlakka til að heyra svör hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurninni.“

„Umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir):
Herra forseti. Svartfugladauða varð að þessu sinni vart alvarlega veturinn 2-20-2001. Rannsóknir á dauðum og deyjandi fuglum fyrsta veturinn sýndu að þeir höfðu drepist úr fæðuskorti. Mest drapst veturinn 2-20-2001 af langvíu og stuttnefju. Ítarleg skýrsla sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands, þeirra Ólafs K. Nielsens og Ólafs Einarssonar, um þessa atburði hefur verið birt í tímaritinu Náttúrufræðingnum.
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa tekið sýni af reknum fuglum alla vetur síðan og það sama hefur komið í ljós, þ.e. að fuglarnir hafa drepist úr hor og eru eins og áður langmest langvía og stuttnefja.
Uppruni þeirra svartfugla sem rekur á fjörur landsins að vetri er væntanlega ólíkur. Merkingargögn benda til að íslenskar langvíur haldi sig fyrst og fremst við landið yfir veturinn en að íslenskar stuttnefjur fari vestur og suður á bóginn og hafi vetursetu undan vesturströndum Grænlands og Nýfundnalands. Þær stuttnefjur sem hér hafa vetursetu verpa hins vegar á Bjarnarey og Svalbarða. Fækkun stuttnefju í Noregi getur þannig tengst breytingum á fæðuskilyrðum við Ísland.
Varðandi hugsanleg tengsl loftslagsbreytinga og sjófugladauða við Íslandsstrendur nú er rétt að benda á að hliðstæðir atburðir hafa verið þekktir í langan tíma, bæði í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi. Heimildir um fjöldadauða svartfugla hér við land ná allt aftur til ársins 1327. Atburðir þessum líkir hafa því þekkst miklu lengur en sú hlýnun andrúmsloftsins sem nú á sér stað.
Það er á hinn bóginn ekki ólíklegt að þessi fjöldadauði svartfugla sé veðurfarstengdur og nægir í því sambandi að nefna kerfisbundnar breytingar á veðurfari í Norður-Atlantshafi sem á sér hliðstæðu í El Niño í Kyrrahafi. Þessar skammtímabreytingar eða sveiflur í veðurfari hafa verið tengdar breytingum á afkomu dýrastofna jafnt á láði sem legi á mjög stórum svæðum við Norður-Atlantshaf. Miðað við áhrif skammtímaveðursveiflna er afar líklegt að þær loftslagsbreytingar sem nú eru hafnar og spáð er muni hafa víðtæk áhrif á sjófuglastofna á Norður-Atlantshafi. Niðurstöður rannsókna sjófuglahóps lífríkisnefndar Norðurskautsráðsins, sem er kallaður CAFF, sem verða birtar á næstunni styrkja þessa skoðun.
Óyggjandi svör við því hvort sá sjófugladauði sem við höfum orðið vitni að undanfarna vetur sé óvenjulegur eða ekki fást einungis með því að vakta á kerfisbundinn máta strandlengju landsins og telja það sem rekur. Jafnframt þyrfti að vakta svartfuglastofna með reglubundnum talningum í fuglabyggðum á vorin og rannsaka afkomu og fæðuvistfræði þeirra. Sjófuglahópur CAFF hefur gert verndar- og vöktunaráætlun um svartfugla á norðurslóðum og Náttúrufræðistofnun hefur gefið út framkvæmdaáætlun fyrir Ísland sem gæti orðið góður grunnur að slíkum rannsóknum.
Miðað við stærð sjófuglastofna hér við land, þekkingu á vistkerfi hafsins og legu landsins í miðju Norður-Atlantshafinu er Ísland í lykilaðstöðu á alþjóðavettvangi til að rannsaka tengsl sjófugla, fæðu þeirra og loftslags. Afkoma sjófugla getur einnig verið mikilvægur vísir á ástand sjávar. Miðað við þessar forsendur er full ástæða til að efla sjófuglarannsóknir við Ísland og það yrði þá gert í samvinnu Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands. Hef ég óskað eftir tillögum Náttúrufræðistofnunar um hvernig slíkt megi best gerast.“

„Anna Kristín Gunnarsdóttir:
Herra forseti. Þetta er afar áhugavert og spennandi umhugsunarefni sem hv. fyrirspyrjandi leggur fram fyrir okkur. Það hvernig lífkeðjan er að fara hjá okkur er áhyggjuefni. Við sjáum í kringum landið skinhoraðan þorsk, margra ára þorsk, t.d. fimm ára þorsk upp á 1,5 kíló. Það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni hvort við erum ekki að fara illa með grunn í fæðukeðjunni, ekki bara með því að skemma flóruna í hafinu sem er t.d. undirstöðufæða sandsíla heldur líka með ofveiði úr loðnustofninum. Veiðiheimildir á loðnu miðast, eftir því sem mér skilst, við endurnýjunargetu stofnsins fyrir sjálfan sig en það þarf líka að vera eitthvað afgangs fyrir önnur dýr í lífríkinu sem nærast á henni, þ.e. fyrir þorsk og fugla. Ég held t.d. að ekki sé nógu mikið tillit tekið til þess þegar veiðiheimildir eru ákveðnar.“

„Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Hér er verið að hreyfa við mjög mikilvægu efni. Það ber að fagna því sem hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan um að hún væri búin að setja í gang vinnu til að athuga möguleikana á því að efla sjófuglarannsóknir. Ég hygg að einmitt sjófuglastofnarnir sem lifa norður af landinu geti á margan hátt veitt okkur dýrmætar upplýsingar um ástand vistkerfisins þar frá einum tíma til annars ef við setjum smávinnu og peninga í að fylgjast með þeim. Þarna getum við notfært okkur upplýsingar sem við fáum með því að fylgjast með þessum fuglum og ástandi þeirra, upplýsingar um það hvernig vistkerfinu reiðir af á hverjum tíma.
En það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að mjög skortir á að aukið verði við grunnrannsóknir á vistkerfinu norður af Íslandi, á vistkerfi Norður-Íshafsins. Það sem gerist þar, sérstaklega yfir sumartímann, er nefnilega mótorinn sem knýr áfram vistkerfi hafsins í kringum Ísland og grundvöllurinn fyrir því ríka lífríki sem er við Íslandsstrendur. Það er enginn vafi á því.“

„Jón Gunnarsson:
Herra forseti. Það voru athyglisverð svör sem komu fram við þessari fyrirspurn, að svartfugl við Ísland er að drepast úr fæðuskorti, eða hann er að drepast úr hor eins og við getum sagt á góðri íslensku. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé vegna þess að fæðuframboð hafi minnkað, eða er það vegna þess að viðgangur þessara fuglastofna er með þeim hætti að fuglunum hefur fjölgað mikið og fæðuskortur er þess vegna? Þetta hlýtur að vera sú grundvallarrannsókn sem fram þarf að fara.
Einnig veltir maður fyrir sér hvaða fæða það er sem svartfuglinn étur yfirleitt. Hefur þá verið rannsakað, ef það er skortur á fæði, hvað valdi fæðuskortinum? Er svartfuglinn í samkeppni við aðrar dýrategundir um þetta fæði eða er hann kannski að mestu leyti í samkeppni við okkur, manninn, um ýmsar sílistegundir sem hann væntanlega nýtir til fæðu?
Það sem mér finnst hafa komið fram í þessu svari er að verulega skortir rannsóknir. Ég fagna því ef þær á að auka því að við verðum að vita meira um vistkerfið fyrir norðan land en við gerum í dag og það gerum við ekki nema með auknum rannsóknum.“

„Drífa Hjartardóttir:
Herra forseti. Hér fara fram mjög áhugaverðar umræður sem eru ekki oft í þingsal um svona efni. Ber að fagna þeim þó að vissulega sé viðfangsefnið mjög neikvæðar fréttir í rauninni, hordauði í farfugli. Öll umhugsunin um lífkeðjuna og vistkerfið er þó góðra gjalda verð og ég tek undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að Norður-Íshafið skiptir miklu máli. Ég þakka líka hæstv. ráðherra Sigríði Önnu Þórðardóttur fyrir svör hennar og að það eigi að efla rannsóknir og vöktun sem ég tel mjög mikilvægt.
Þetta er einmitt verkefni fyrir náttúrustofur úti á landsbyggðinni, svona rannsóknarverkefni, og ég fagna því að þessi umræða er á góðu stigi á hinu háa Alþingi.“

„Jóhann Ársælsson:
Hæstv. forseti. Það er mikið umhugsunarefni, þær fréttir sem við höfum af lífríki sjávar í kringum landið. Þorskurinn er illa haldinn, ekki bara í Breiðafirði heldur víðar, og það er svartfugladauði fyrir Norðurlandi. Það sem mér er kannski mesta umhugsunarefnið — ég fagna að vísu því að hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt frá því að hún ætli í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og aðra aðila að sjá til þess að farið verði að skoða þessi mál betur.
Ég held að við þurfum að taka til hjá okkur vegna þess að þekkingarleitin hefur greinilega verið allt of skammt komin hvað þessa hluti varðar fram að þessu. Þann hluta sem snýr að okkar eigin stjórn á veiðum þarf auðvitað að taka til endurskoðunar sem allra fyrst. Það kann vel að vera að einmitt ákvarðanir okkar um nýtingu stofna hafi þarna verulega mikil áhrif.“

„Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):
Forseti. Ég þakka þessar umræður. Það fór eins og mig grunaði að menn hafa í raun og veru of lítinn tíma til að segja það sem þeir vildu segja. Kannski eigum við að ræða þetta síðar í öðru formi.
Ég vil líka þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir afar góð svör við spurningum sem auðvitað kemur í ljós að ekki er hægt að svara á núverandi stigi. Ég verð að segja að ég fagna því mjög að hún skuli hafa óskað eftir tillögum um það hvernig þessu starfi verði háttað í framtíðinni. Ég held einmitt að þessir þrír aðilar sem hún nefnir til, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun og Háskóli Íslands, séu þeir aðilar innan lands sem geta fært þetta eitthvað fram. Við þurfum að vita þessa hluti og við þurfum að geta greint á milli þess sem nú kann að vera að gerast vegna loftslagsbreytinga af manna völdum og einstakra sveiflna í þessum stofnum og öðrum sem, eins og ráðherra sagði, við höfum heimildir um langt aftur í tímann.
Þær heimildir eru auðvitað mjög misjafnar. Það sem nú er að gerast er að við höfum heimildir um þetta í fyrsta lagi nokkra vetur á Íslandi og síðan höfum við þær líka á öllu hafsvæðinu. Það sem við erum að horfa á hérna er að mér sýnist málið alvarlegra en það sem áður hefur gerst og það bendir til þess að til þessa séu ekki eingöngu einhver stofnarök heldur sé þetta hlýnun sjávar almennt. Ég skal þó engu spá um það.
Ég held líka að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra og fagna þeim skilningi hennar að við eigum að bregðast við þessum breytingum hér, bæði hinum almennu loftslagsbreytingum og auðvitað þeim breytingum sem eiga sér ekki slíkar skýringar í kringum okkur, með aukinni vöktun og ég held að við eigum að verja fé til þess úr almennum sjóðum landsmanna. Ekki er það verra ef það hjálpar atvinnulífi á landsbyggðinni og styrkir þar byggð. Þar tek ég undir með hv. þm. Drífu Hjartardóttur þó að við séum ekki alltaf alveg sammála um alla hluti.“

„Umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir):
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum þessar ágætu umræður og þær ábendingar og hugleiðingar sem komu fram í máli þeirra. Ég bendi líka á að grein Ólafs Nielsens og Ólafs Einarssonar í Náttúrufræðingnum sem birtist á síðasta ári er mjög athyglisverð. Þar er auðvitað farið mjög vandlega ofan í þessi mál og með leyfi hæstv. forseta langar mig til að vitna í greinina. Þar er spurt:
„Hvað olli fæðuskortinum? Var lítið um æti eða voru skilyrðin þannig að fuglinn náði ekki í æti?
Samkvæmt því sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar tjá okkur var nóg af æti, bæði loðnu og krabbaátu, sumarið 2001 og veturinn 2-20-2001. Samkvæmt þessu er ólíklegt að beinlínis hafi verið um skort á æti að ræða. Líklegri skýring er að einhver ytri skilyrði hafi verið fuglinum óhagstæð og torveldað svo veiði að hungur og kröm fylgdi í kjölfarið og reið þúsundum þeirra að fullu. Við vitum ekki hvaða þættir þetta voru. Hér gætu hafa spilað saman áhrif storma á hafísrek sem hafi þá annaðhvort hamlað fæðunámi fuglanna eða haft áhrif á dreifingu loðnutorfanna eða krabbaátu flekkjanna. Við vitum ekki heldur hvort þessir atburðir áttu sér einhvern aðdraganda. Voru skilyrðin óhagstæð vikum og mánuðum saman eftir að svartfuglarnir voru komnir á vetrarstöðvarnar þannig að fuglinn var smám saman að veikjast eða gerðist það mjög snögglega að tók fyrir aðgang að æti?“
Þetta eru flókin mál og það er full ástæða til að vakta strendur landsins og skoða þessi mál með kerfisbundnum hætti. Þess vegna hef ég beðið um tillögur frá Náttúrufræðistofnun eins og ég sagði frá í upphafi máls míns.“