Í Fiskifréttum sem út komu sl. föstudag er fjallað um erindi sem Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar flutti á aðalfundi LÍÚ. Þar fór Jóhann yfir samspil þorsks og loðnu, auk þess sem hann vék að ýmsum álitamálum við nýtingu loðnustofnsins. Umfjöllun Fiskifrétta er ítarleg og erindi Jóhanns hefur verið yfirgripsmikið og fróðlegt.
Jóhann vék að ástæðum þess að hrygningarloðna hefði ekki gengið inn í Faxaflóa og Breiðafjörð sl. tvö ár. Hugsanlega gæti það tengst „breytingum á eðliseiginleikum sjávar á svæðinu, hærri hita og aukinni seltu.“ „Um staðhæfingar þess efnis að flotvörpuveiðarnar yllu því að loðnan gengi ekki vestur fyrir land sagði Jóhann að um slíkt yrði ekki fullyrt að svo stöddu. Göngurnar hefðu t.d. skilað sér vestur fyrir árin 2000 – 2002, þ.e. eftir að flotvarpan var komin í fulla notkun. Flotvarpan væri hins vegar stórtækt veiðarfæri og því væri líklega í varúðarskyni skynsamlegt að halda togveiðum á loðnu utan við landgrunnið og heimila ennfremur ekki togveiðar að sumri og hausti. Þá væri eflaust skynsamlegt að leyfa ekki togveiðar sunnan Dalatanga eða Gerpis þar sem hrygningartorfur eru að þéttast og undirbúa sig fyrir göngur upp að landi. „ekki er skynsamlegt að menn róti í loðnutorfum með flotvörpu á þessum tíma,“ sagði Jóhann.“
„Jóhann sagði að álitamálin við notkun flotvörpunnar væru einkum þrjú“:
hvort meira dræpist af loðnu en um borð kæmi við ánetjun eða smug
hvort óæskilegur meðafli fáist
hver áhrif flottrolls væru á göngur og hegðun loðnunnar.
Fram kom hjá Jóhanni „að rannsóknir hafi leitt í ljós að um 35% af innihaldi maga þorsks væri loðna. Hann upplýsti einnig að gróft mat á árlegu afráni á loðnu væri um 4 milljónir tonna. Hvalir eru þar stórtækastir og taka gróft áætlað 1-2 milljónir tonna af loðnu, fiskar koma þar á eftir með 1,3 milljónir tonna – þar af tekur þorskurinn um 900 þúsund tonn – loðnuveiðar nema rétt rúmlega einni milljón tonna og sjófuglar reka svo lestina með 340 þúsund tonn á ári.“
Í lok greinarinnar er vikið aftur að flotvörpuveiðum. „Hvað flotvörpuveiðar áhrærir sagði Jóhann að ljúka þyrfti rannsóknum á ánetjun og smugi. Hann sagði það vera óvíst hvort flotvarpan hefði varanleg áhrif á hegðun og atferli loðnu þannig að hún gengi síður suður og vestur til hrygningar. Þó væri ljóst að mikil síun og verulegt rask ætti sér stað á miðunum vegna flottrollsins enda um stórtækt veiðarfæri að ræða. Því væri skynsamlegt að takmarka notkun flottrolls á ákveðnum tímum og ákveðnum svæðum í varúðarskyni.“
Þegar framanritað hefur verið lesið má ætla að stutt sé í að Hafrannsóknastofnun geri tillögu til sjávarútvegsráðherra um að hann setji reglur sem takmarka munu loðnuveiðar með flottrolli.
Tilvitnanir: Fiskifréttir 11. nóvember 2005.