Umhverfisráðherra á Umhverfisþingi 2005 – afli „fylgir oftast nokkuð vel ráðleggingum vísindamanna“

Nú stendur yfir Umhverfisþing 2005 sem umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir boðaði. Þingið er hið IV. í röðinni og er síðari dagur þess á morgun laugardag. Á þinginu er fjallað um sjálfbæra þróun og er stefna stjórnvalda um sjálfbæra þróun „Velferð til framtíðar’ í brennidepli – http://www.umhverfisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/249

Í dag voru flutt mörg fróðleg erindi og eru flest þeirra komin á vefinn, slóðin er: http://www.umhverfisraduneyti.is/afgreidsla/auglysingar/nr/754

Umhverfisþingið var sett í morgun með ávarpi umhverfisráðherra. Það vakti athygli að ráðherrann tók ekki undir grátkór Hafrannsóknastofnunar að dapurt ástand þorskstofnsins væri því að kenna að veitt hefði verið umfram ráðgjöf. Hér er birtur kafli úr ávarpi ráðherra um þetta efni:
„Sjálfbær þróun er hugtak sem oft heyrist, en inntak þess vefst fyrir mörgum. Það felur þó í sér tiltölulega einföld og auðskilin sannindi, sem því miður hefur oft reynst erfitt að halda í heiðri. Ef við notum líkingamál fjármálaheimsins, þá þýðir sjálfbær þróun að við megum ekki ganga á höfuðstól náttúrunnar, svo afrakstur komandi kynslóða verði minni en okkar. Mörg dæmi eru um slíkt. Þekktasta dæmið hérlendis er aldalöng eyðing skóga og jarðvegs, þar sem við erum í mikilli skuld við landið þrátt fyrir nær aldarlangt skipulegt starf á sviði landgræðslu og skógræktar. Hversu miklu meiri væri arðurinn af landinu í dag ef ekki hefði komið til þessi eyðing gróðurs og jarðvegs?

Sem betur fer finnast mörg dæmi hérlendis um sjálfbæra þróun í verki. Við Íslendingar reynum að stýra sókn í fiskistofna á þann veg að þeir séu ekki ofnýttir og standi undir þróttmikilli atvinnugrein. Þótt fiskveiðistjórnun sé vinsælt þrætuepli, þá hefur okkur tekist betur upp en mörgum öðrum. Í nýju riti með tölulegum vísbendingum um stöðu umhverfismála og sjálfbæra þróun, sem hér liggur frammi á þinginu, sést að afli á tegundum sem lúta óskoruðu forræði Íslendinga fylgir oftast nokkuð vel ráðleggingum vísindamanna. Vísindin eru ekki óskeikul og sveiflur í náttúrunni valda því að við stjórnum ekki stærð stofnanna, þrátt fyrir góðan ásetning. Það er engu að síður einn af hornsteinum sjálfbærrar þróunar að fylgja skuli bestu fáanlegu þekkingu við nýtingu auðlinda. Það væri fróðlegt að sjá sambærilega vísa um vísindalegar ráðleggingar og aflatölur hjá ýmsum þeim ríkjum og ríkjasamböndum sem við berum okkur helst saman við.“

Ávarp ráðherra í heild: http://www.umhverfisraduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar/nr/758