Í sjávarútvegsráðuneytinu er nú unnið að gerð nýrrar reglugerðar um vigtun sjávarafla. Í ávarpi sjávarútvegsráðherra Einars Kristins Guðfinnssonar, á aðalfundi Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, vék hann m.a. að drögum að fyrirhugaðri reglugerð. Hann sagði að þar væri gert ráð fyrir að slægingarstuðull í þorski, ýsu og ufsa yrði afnuminn. Eftirfarandi er kafli úr ræðu sjávarútvegsráðherra:
„Vegna eindreginna óska hagsmunaaðila er nú gert ráð fyrir að slægingarstuðull verði afnuminn í nokkrum bolfisktegundum, þ.e. þorski, ýsu og ufsa, og er gert ráð fyrir að þær tegundir verði ávallt vigtaðar slægðar – gert er ráð fyrir að afla sé ýmist landað slægðum eða hann slægður í landi og vigtaður í kjölfarið. Kostirnir eru augljósir, aflaskráning verður nákvæmari og útgerðir munu ekki þurfa að sæta því að slóginnihald verði dregið af aflamarki þeirra. Ókosturinn er hins vegar sá að ef menn landa óslægðum afla og notfæra sér ekki kost á endurvigtun eftir slægingu heldur vilja ljúka vigtun aflans á hafnarvog kæmi slóginnihaldið að fullu til frádráttar aflamarki.
Ég hef hér gert að einkum að umtalsefni þrjá þætti í drögum að nýrri reglugerð um vigtun þ.e. heilvigtun eða úrtaksvigtun, afnám slægingarstuðulsins fyrir þorsk ýsu og ufsa og hve mikilvægt það er í fiskveiðistjórnuninni og fyrir þá sem höndla með fisk að hafa sem bestar upplýsingar eins fljótt og auðið er. Við eigum að búa þannig um hnútana að upplýsingar sem aflað er, nýtist áfram; meðal annars til að rekja vöru fram og til baka en kröfur um rekjanleika afurða verða æ meiri en ekki síður vegna þess að áreiðanleg vigtun afla sem allra fyrst í framleiðsluferlinu er einn þeirra þátta sem geta gefið færi á að skipuleggja bæði veiðar og vinnslu betur.“
Ræðuna í heild er hægt að nálgast á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins – http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/radherra/Raedur_EKG/nr/1091