Vakin er athygli á að n.k. föstudag 2. desember mun Jón Sólmundsson flytja erindið Friðunarsvæði og göngur þorsks norðvestan Íslands.
Í frétt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir svo um væntalegt erindi:
„Friðun á hluta af útbreiðslusvæði nytjafiska er ein þeirra aðferða sem notuð er við stjórn fiskveiða, oftast sem viðbót við aðrar aðgerðir svo sem takmarkanir á sókn eða heildarafla. Árið 1993 gaf sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð um föst friðunarsvæði við Ísland, þar sem veiðar voru bannaðar ótímabundið með botnvörpu, flotvörpu og línu. Flest þessara svæða voru fyrir norðan og austan land og var þeim ætlað að vernda smáþorsk. Í þessu erindi verður greint frá niðurstöðum merkinga á þorski á friðunarsvæðum og veiðislóð fyrir norðvestan land árin 1994 og 1995. Breytingar á útbreiðslu smáþorsks í togararalli voru einnig skoðaðar. Vitað er að ástand sjávar út af norðvestanverðu landinu er mjög breytilegt, og upplýsingar um ferðir þorsksins verða skoðaðar í ljósi breytinga á hitastigi sjávar. Í erindinu verður auk þess sagt í stuttu máli frá öðrum rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar á áhrifum þessara friðunaraðgerða.“
Erindið verður flutt í fundarsal á 1. hæð Skúlagötu 4 og hefst klukkan 12:30.??