Elding, félag smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum, hélt almennan félagsfund sl. sunnudag. Á dagskrá fundarins voru m.a. ráðningasamningar á smábátum. Umræður um þann lið voru mjög málefnalegar og greinilegt að smábátaeigendur í Eldingu telja að ekki sé ágreiningur um þessi mál hjá þeim. Bent var á að í gildi væri samningur milli 11 útgerða í Bolungarvík og Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur og væri algengt að menn hefðu þann samning til hliðsjónar.
Eindregin hvatning var á fundinum til félagsmanna að gera samning um kaup og kjör við launþega sem ynnu hjá útgerðinni. Bent var á að öll grundvallarréttindi sjómanna á smábátum væru tryggð í sjómannalögum. Þá kom fram að á Alþingi hefði komið fram fyrirspurn frá Sigurjóni Þórðarsyni (F) til félagsmálaráðherra um réttarstöðu sjómanna: „Hefur ráðherra kannað réttarstöðu sjómanna á smábátum sem eru án kjarasamninga?“
Almennt töldu félagsmenn að stjórn Eldingar ætti að koma að þessum málum og ræða við Alþýðusamband Vestfjarða.
Fundurinn samþykkti að fela stjórn Eldingar að ræða, án allra skuldbindinga, við Alþýðusamband Vestfjarða um ráðningasamninga á félagssvæði Eldingar.
Myndir: hluti fundarmanna og Gunnlaugur Finnbogason formaður Eldingar