Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 16. desember sl.
Frá því var greint á heimasíðu LS – smabatar.is – þann 22. nóvember sl. að fyrirhugað væri að breyta reglugerð um vigtun sjávarafla á þann veg að afnema slægingarstuðul í þorski, ýsu og ufsa. Bent var á að þetta hefði komið fram í ávarpi sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Samtaka fiskvinnslu án útgerðar.
Eftir að fréttin birtist komu mjög skýr skilaboð frá félagsmönnum LS um að hér væri málefni á ferðinni sem krefðist nokkurrar yfirlegu. Nánast allir sem tjáðu sig voru andvígir fyrirhugaðri breytingu. Þá var því einnig velt upp hvers vegna LS hefði gefið grænt ljós á breytinguna, þar sem sjávarútvegsráðherra hefði notað það sem rök fyrir henni að hún væri tilkomin „vegna eindreginna óska hagsmunaaðila“. Rétt er að leiðrétta það hér að LS hefur ekki óskað eftir breytingum á núverandi fyrirkomulagi.
Kynning á nýrri vigtarreglugerð
LS hefur setið tvo fundi þar sem fjallað var um breytingar á reglugerð um vigtun. Fyrri fundurinn var 4. maí sl. þegar LS var kynnt vinnuskjal um drög að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Í vinnuskjalinu voru engar vísbendingar um að fyrirhugað væri að skylda vigtun á þorski, ýsu og ufsa eftir slægingu og sú vigt mundi gilda til kvóta.
Síðari fundurinn var haldinn 1. nóvember sl. en þá frétti LS fyrst af slægingarákvæðinu. Á fundinum voru til umfjöllunar lokadrög reglugerðarinnar. LS var því ekki í hópi þeirra hagsmunaaðila sem „eindregið“ hafa mælt með því að skylt verði að vigta framangreindar tegundir eftir slægingu. Ekki tókst að ná samkomulagi um lokadrögin á þeim fundi, en boðað hefur verið til fundar miðvikudaginn 14. desember um málefnið.
Ekki tilefni til breytinga
Ráðherra tók fram í ávarpi sínu að kostir þessara breytinga væru að aflaskráning yrði nákvæmari og útgerðir myndu ekki þurfa að sæta því að slóginnihald yrði dregið af aflamarki þeirra.
Mín skoðun er sú að ekki sé tilefni til að framkvæma fyrirhugaðar breytingar. Í flestum tilfellum mundu þær rýra gæði aflans, draga úr skilvirkni til kaupenda, lækka fiskverð til útgerðar og sjómanna og auka kostnað og vinnu við umsýslu.
Fyrirhugaðar breytingar mundu eingöngu bitna á þeim sem kæmu með óslægðan afla að landi og rýra þar með þeirra hlut frá því sem nú er. Þá er hætt við að sá tími sem liði frá löndun til vinnslu aflans mundi lengjast og þar með gæði versna, þar sem óvarlegt væri að sleppa höndum af aflanum fyrr en kvótavigtun hefði farið fram.
Ekki hægt að flaka óslægt
Auk þess sem hér hefur verið talið yrði minna frjálsræði í vinnslu aflans, þar sem ekki yrði lengur heimilt að flaka fiskinn óslægðan. Þannig væri verið að þvinga menn til vinnubragða sem þeir hafa kosið að breyta í því skyni að auka gæði aflans.
Þessu til viðbótar er ekki hægt að neita því að verið væri að innleiða eitt vigtunarferli í viðbót. Það mundi leiða til aukins kostnaðar frá því sem nú er og er þar ekki ábætandi. Þá hef ég hugleitt það að kostnaður við slægingu mundi leggjast með beinum hætti á útgerðina.
Þegar framanritað er haft í huga, þar með taldar röksemdir sjávarútvegsráðherra um kosti breytinganna tel ég rétt að hreyfa ekki við þeim reglum sem nú gilda við vigtunina.
Það er þó rétt að það komi fram að undirritaður telur sanngjarnt að komið sé til móts við ,,eindregnar óskir” þeirra hagsmunaaðila sem ráðherrann vitnaði til og þeim gefinn kostur á að vinna eftir fyrirhuguðum reglum. Þeir sem kjósa hins vegar að vinna eftir þeim reglum sem nú eru verði heimilað slíkt áfram.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.